Tíu sveitarstjórnarmenn eru með meira en tvær milljónir króna í mánaðarlaun samkvæmt Tekjublaði Frjálsrar verslunar.
Tekjuhæsti sveitarstjórnarmaðurinn er Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar með um 2,6 milljónir króna á mánuði. Ármann Kr. Einarsson bæjarstjóri í Kópavogi er með um 2,5 milljónir í mánaðarlaun og Theódóra S. Þorsteinsdóttir einnig bæjarfulltrúi í Kópavogi með um 2,2 milljónir.
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar er með 2,1 milljón í mánaðarlaun, Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri á Seltjarnarnesi með rétt rúmar 2 milljónir og hið sama gildir um Dag B. Eggertsson borgarstjóra Reykjavíkur.
Aðeins laun borgarstjórans í San Francisco í Bandaríkjunum, þar sem búa 900 þúsund manns, eru hærri en laun Gunnars og Ármanns samkvæmt síðu Wikipedia um laun borgarstjóra víða um heim.
Laun Dags B., sem er í 11. sæti listans eru hærri heldur en laun Bill de Blasio borgarstjóra New York borgar. Í New York búa 8,5 milljón manns. Íbúar Reykjavíkur eru 126 þúsund. Íbúar Garðabæjar eru 16 þúsund og í Kópavogi búa 36 þúsund manns. Íbúar Mosfellsbæjar eru rúmlega 10 þúsund og á Seltjarnarnesi búa tæplega 5 þúsund manns.
Laun Haraldar og Ásgerðar eru þau 13. og 14. hæstu samkvæmt síðunni, hærri heldur en mánaðarlaun til dæmis borgarstjóranna í Boston og London. Íbúafjöldin í London eru tæpar 9 milljónir.
Enginn sveitarstjórnarmaður á lista Tekjublaðs Frjálsrar verslunar, sem sýnir mánaðarlaun 65 sveitarstjórnarmanna, er með laun sem eru lægri en 1,1 milljón á mánuði.
Útreikningar Frjálsrar verslunar byggja á útsvarsskyldum tekjur á árinu 2017 og þurfa ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga. Í launum sumra kann að vera falinn bónus vegna starfa á fyrri ára. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Sleppt er skattfrjálsum dagpeningum, bílastyrkjum og greiðslum í lífeyrissjóði. Listi Wikipediu er augljóstlega ekki tæmandi eða 100 prósent áreiðanlegur, en gefur þó ágætan samanburð.