Kæra hefur borist sýslumanninum á Vestfjörðum vegna gildis kjörskrár í hreppsnefndarkosningum í Árneshreppi á Ströndum. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Barst hún nú um helgina og hefur Jónas Guðmundsson sýslumaður þegar skipað þriggja manna nefnd lögfræðinga, lögum samkvæmt, sem mun taka afstöðu til kærunnar.
Kæran byggir á því að skilyrði til þess að ógilda kosningarnar í Árneshreppi séu uppfyllt.
Töluverð umræða hefur skapast um Árneshrepp, meðal annars vegna lögheimilisflutninga í hreppinn í aðdraganda sveitastjórnarkosninga. Í hreppnum hefur meðal annars verið deilt um Hvalárvirkjun, vegna umhverfisáhrifa hennar en deildar meiningar eru um hana, bæði meðal íbúa í hreppnum sem og annarra sem láta sig náttúruvernd varða.
Þjóðskrá Íslands staðfesti ekki nokkra þeirra lögheimilisflutninga sem áttu sér stað í aðdraganda kosninga.
Í kærunni er málsmeðferð hreppsnefndar, oddvita hreppsnefndar og Þjóðskrár Íslands gagnrýnd harðlega, að því er segir í Morgunblaðinu.