Afgangur af viðskiptum var 300 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi 2018. Líkt og á síðustu árum þá er það mikill afgangur vegna þjónustuviðskipta, þar sem ferðaþjónustan er langsamlega stærsti þátturinn, sem heldur viðskiptajöfnuðinum við útlönd jákvæðum.
Halli á vöruskiptajöfnuði var 27,8 milljarðar króna en afgangur á þjónustujöfnuði var 32,6 milljarðar. Frumþáttatekjur voru með 0,1 milljarða halla halla og rekstrarframlög um 4,3 milljarða króna halla.
Þetta kemur fram í nýbirtum upplýsingum á vef Seðlabanka Íslands sem sýna bráðabirgðayfirlit um greiðslujöfnuð við útlönd á fyrsta ársfjórðungi 2018 og erlenda stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins.
Sé miðað við stöðuna á fyrsta ársfjórðungi í fyrra, þá minnkar afgangur vegna þjónustu um tæplega 10 milljarða, en hann var 41,3 milljarðar á fyrsta ársfjórðungi 2017.
Samkvæmt bráðabirgðayfirlitinu námu erlendar eignir þjóðarbúsins 3.096 milljörðum króna í lok ársfjórðungsins en skuldir 2.861 milljörðum króna.
Hrein staða við útlönd var því jákvæð um 235 milljarðar króna eða 9% af vergri landsframleiðslu (VLF) og batnaði um 55 milljarðar króna eða 2,1% af landsframleiðslu.
Miklar sveiflur eru í yfirleitt í þjónustutekjum þjóðarbússins, og þar skiptir mikil árstíðarsveifla miklu máli, en sumarmánuðirnir eru háannatími í ferðaþjónustunni.