Sigríður Víðis Jónsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarmaður Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra. Þetta kemur fram í frétt ráðuneytisins.
Sigríður mun hefja störf í áföngum í sumar, samhliða því að klára fæðingarorlof, og koma síðan alfarið til vinnu 1. september næstkomandi, samkvæmt fréttinni. Hún verður aðstoðarmaður ráðherrra ásamt Orra Páli Jóhannssyni.
Sigríður er fædd og uppalin á Akranesi. Hún er með BA-próf í heimspeki frá Háskóla Íslands, með mannfræði sem aukagrein, og meistarapróf í þróunar- og átakafræðum frá University of East Anglia í Bretlandi.
Sigríður hefur síðastliðin ár stýrt kynningarmálum hjá UNICEF á Íslandi en hún hóf þar störf sem upplýsingafulltrúi árið 2011.
Á árunum 2000 til 2011 vann Sigríður sem blaðamaður, ýmist í lausamennsku, í fullu starfi eða meðfram námi. Hún vann fréttaskýringar, viðtöl, pistla og ferðasögur víðs vegar frá í heiminum og skrifaði einnig verðlaunabókina „Ríkisfang: Ekkert“ um hóp palestínskra kvenna og barna sem flúðu Írak og enduðu á Akranesi. Bókin var meðal annars tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna og hlaut verðlaun Hagþenkis.
Maki Sigríðar er Leó Alexander Guðmundsson, líffræðingur, og eiga þau tvö börn saman, Hauk 4 ára og Laufeyju 8 mánaða.
Aðstoðarmaður þurfti að hætta
Sif Konráðsdóttir og Orri Páll Jóhannsson voru ráðin aðstoðarmenn Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, þann 14. desember síðastliðinn en þann 16. febrúar ákvað ráðherra að Sif myndi hætta störfum í ráðuneytinu. Hún var aðstoðarmaður ráðherra í rúma tvo mánuði.
Kjarninn birti viðtal við Ólöfu Rún Ásgeirsdóttur, þolanda í kynferðismáli. Þar greindi hún frá því að hún væri ósátt við traust ráðherrans á Sif. Ólöf hafi upplifað það sem sjálfstætt brot þegar Sif, þá réttargæslumaður hennar, hafi ekki greitt henni miskabætur sem henni voru dæmdar vegna kynferðisbrotsins. Ólöf þurfti að leita sér aðstoðar annars lögmanns til að innheimta bæturnar sem á endanum fengust greiddar. „Mér fannst hún með þessu gera svo lítið úr brotinu, þetta litla sem við fengum að geta ekki borgað okkur þetta strax. Ef ég myndi stela úr fyrirtækinu sem ég er að vinna hjá, en seint og síðar meir borga það til baka, þá fengi ég ekkert að halda vinnunni,“ sagði Ólöf í viðtalinu.