Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi fjármálaráðherra, gagnrýndi ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur harðlega, í ræðu sinni í eldhúsdagsumræðum í kvöld. Hún sagði ríkisstjórnina nú ætla að gefa „stórútgerðum“ allt að þrjá milljarða, með lækkun veiðigjalda.
Hún sagði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra hafa talað fyrir því, að ríkisstjórnin ætlaði sér ekki að lækka veiðigjöld, heldur þvert á móti hækka þau.
Oddný sagði ríkisstjórnina koma fram eins og sérhagsmunabandalag. „Ríkisstjórnin ætlar að rétta útgerðinni tæpa þrjá milljarða og stórútgerðinni bróðurpartinn af því fé, stórútgerðinni sem sannarlega líður engan skort. Það gera hins vegar öryrkjar og aldraðir sem þurfa að reiða sig á greiðslur Tryggingastofnunar,“ sagði Oddný í ræðu sinni.
Hún sagðist enn fremur, hafa miklar áhyggjur af því að misskipting, bæði í tekjum og eignum, væri að aukast, dag frá degi. „Ég var þá svo innilega sammála Katrínu Jakobsdóttur og þess vegna hryggir mig áhrifaleysi hennar sem forsætisráðherra sem engu kemur í gegn um ríkisstjórn sína í þessum efnum nema málamyndabreytingum á fjármagnstekjuskatti með litlum ávinningi fyrir ríkissjóð,“ sagði Oddný.