Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og formaður Viðreisnar sagði að ekki væri hægt að afkomutengja veiðigjöldin að öllu leyti. Hún líti á þau sem aðgangsmiða útgerðanna að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, ekki bara skatt. Því væri ekki hægt að afkomutengja þau alfarið.
Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag, þar sem Þorgerður spurði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðhera út í frumvarp meirihluta atvinnuveganefndar sem meðal annars mun leiða til þess að tekjur af veiðigjöldum munu lækka um 1,7 milljarð króna.
Þorgerður spurði forsætisráðherra hvort til greina komi að afgreiða frumvarpið í meiri sátt, þetta frumvarp væri seint fram komið og ætti að „keyra ofan í kokið“ á stjórnarandstöðunni. Lagði hún til að núverandi veiðigjöld yrðu framlengd, persónuafsláttur fyrir minni sjávarútvegsfyrirtækin hækkaður og síðan yrði nýtt fyrirkomulag rætt í haust.
Katrín sagðist skilja mætavel þá gagnrýni stjórnarandstöðunnar að frumvarpið, sem fæli í sér svo miklar breytingar, kæmi inn í þingið með svo skömmum fyrirvara og þess vegna hafi hún boðað til fundar með formönnum flokkanna til að ræða framhaldið. Katrín sagðist reiðubúin til að fara yfir hvort að unnt sé að skapa meiri sátt um málsmeðferð þessa máls, svona breytingar auðvitað kalli á umræðu.
Katín sagðist þó hafa átt von á því að hægt væri að ná meiri samtöðu um markmiðin sem birtist í frumvarpinu, sem væri að að færa útreikning veiðigjaldanna nær rauntíma. Hún sagðist telja að gjöldin ættu að vera afkomutengd og miða við nýjustu útreikninga, sem sýni að afkoman hafi versnað verulega.
Þorgerður mótmælti þessu eins og áður greinir, sagðist ósammála því að afkomutengja eigi veiðigjöldin að öllu leyti. Hún sagði sjávarútveginn í grunninn vel rekinn og vel stæða atvinnugrein, þó að afkoman hafi versnað að litlu leyti. Þetta frumvarp snúi helst að því að lækka veiðigjöld þeirra best stæðu og stærstu. Tuttugu stærstu útgerðirnar munu fá 80 prósent af lækkun gjaldanna.
Áður hafði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, deilt á lækkun gjaldanna í fyrirspurn sinni til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Þar spurði hún ráðherra um ákvörðun lyfjanefndar Landspítalans að neita sex ára dreng með ólæknandi vöðvahrörnunarsjúkdóm um nauðsynleg lyf.
Inga sagði það kosta 50 milljónir að gefa drengnum lyfið. „Það er of mikið. En það var ekki of mikið að lækka tekjuskattinn um 1% fyrir 14 milljarða, ekki of mikið að lækka bankaskattinn fyrir 7 milljarða og það er ekki of mikið að kalla núna á lækkun veiðigjalda upp á tæpa 3 milljarða. En það er of mikið að hjálpa þessum litla dreng af því að það kostar of mikla peninga.“