Ferðamenn frá Bandaríkjunum eru langsamlega stærsti hópurinn sem heimsækir Ísland, sé horft upprunalands ferðamanna sem koma til Íslands.
Samkvæmt nýjum tölum frá Ferðamálastofu, sem sýnir brottfarir frá Keflavíkurflugvelli í maí, má sjá að bandarískir ferðamenn voru yfir 30 prósent af öllum þeim sem heimsóttu landi.
Flugsamgöngur milli Bandaríkjanna og Íslands hafa aldrei verið betri, og má rekja drjúgan hluta þess vaxtar sem átt hefur sér stað í ferðaþjónustu á Íslandi til örari og fjölbreyttari flugferða milli Bandaríkjanna og Íslands. Þetta á við um WOW Air, Icelandair og önnur erlend flufélög.
Icelandair hóf um síðastliðna helgi áætlunarflug til San Francisco og er borgin 23. áfangastaðurinn í Norður-Ameríku sem Icelandair býður upp á í leiðakerfi sínu. Flogið verður fjórum sinnum viku fram í október en tvisvar sinnum í hverri viku í vetur, að því er fram kemur í umfjöllun á vefnum Túristi.is.
San Francisco er ein þekktasta og vinsælasta ferðamannaborg í heimi og jafnframt ein af fjölmennustu borgum Bandaríkjanna með um 9 milljónir íbúa á San Francisco Bay Area svæðinu. Icelandair er þó ekki eina flugfélagið sem tengir borgina við Ísland því WOW air flýgur einnig þangað allt árið um kring.
Beint flut er nú frá öllum helstu borgum vesturstrandar Bandaríkjanna í Kaliforníu, Oregon og Washington, þar sem Seattle er.
Brottfarir erlendra farþega um Keflavíkurflugvöll í maí síðastliðnum voru um 165 þúsund talsins samkvæmt talningum Ferðamálastofu og Isavia í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða um 19.200 fleiri en í maí á síðasta ári.
Fjölgunin nemur 13,2% á milli ára, sem er meiri hlutfallsleg aukning en aðra mánuði ársins. Sé litið til tímabilsins frá áramótum, eða janúar-maí, dregur úr aukningu í samanburði við fyrri ár.
Bandaríkjamenn voru fjölmennastir í maí eða tæpur þriðjungur og fjölgaði þeim um 18,3% milli ára.
Frá áramótum hafa 793.500 erlendir farþegar farið úr landi um Keflavíkurflugvöll sem er 5,6% aukning miðað við sama tímabil í fyrra.
Það má segja að það sé af sem áður var, þegar kemur að viðskiptasambandi Íslands og Bandaríkjanna. Í ítarlegri skýrslu Seðlabanka Íslands, um valkosti Íslands í gjalmiðlamálum, er fjallað um Bandaríkjadalinn og viðskiptasambandið við Bandaríkin. Í skýrslunni segir meðal annars: „Af öðrum valkostum hafa Bandaríkin þann kost að vera stórt myntsvæði og Bandaríkjadalur er forðagjaldmiðill. Því myndi töluverður ábati í formi nettenglaáhrifa fylgja upptöku Bandaríkjadals. Hins vegar eru viðskipti Íslands við Bandaríkin tiltölulega lítil og tengsl við hagsveiflu þeirra takmörkuð.“
Þetta var skrifað árið 2012, en nú er staðan gjörbreytt. Bandaríkin er orðið stærsta einstaka viðskiptaland Íslands og gjaldeyrisframlag bandarískra ferðamanna nemur á bilinu 150 til 200 milljarða króna árlega.