Alþingi samþykkti í gær frumvarp til laga um brottnám líffæra, nánar tiltekið um svokallað ætlað samþykki, það er að segja að nema megi brott líffæri eða lífræn efni úr líkama látins einstaklings til nota við læknismeðferð annars einstaklings hafi hinn látni ekki lýst sig andvígan því og það er ekki af öðrum sökum talið brjóta í bága við vilja hans.
Þetta þýðir að hafi látinn einstaklingur ekki lýst sig sérstaklega mótfallinn því að líffæri hans séu nýtt til líffæragjafar eftir andlát þá mega heilbrigðisstarfsmenn nýta þau til að græða í annan einstakling sé það hægt. Þó með þeirri takmörkun að þetta gildir ekki ef nánasti vandamáður hins látna leggst gegn þessu.
Mikil breyting
Í gildandi rétti fyrir þessa breytingu var miðað við að líffæri yrðu ekki numin brott nema fyrir liggi samþykki viðkomandi eða nánasta vandamanns hans og því í raun gert ráð fyrir ætlaðri neitun í stað ætlaðs samþykkis, það er að hinn látni hefði ekki veitt samþykki fyrir brottnámi líffæris að sér látnum, nema annað liggi fyrir.
Í greinargerð með frumvarpinu segir að því til grundvallar liggi sú afstaða að eðlilegra sé að gera ráð fyrir því að fólk vilji koma náunga í neyð til hjálpar með því að gefa líffæri og lífræn efni að sér látnum en ekki. Af þessum sökum sé eðlilegra að löggjöf endurspegli viðhorf um „ætlað samþykki“ en „ætlaða neitun“ vegna líffæragjafar.
„Með frumvarpinu er staðinn vörður um sjálfsákvörðunarrétt fólks um eigin líkama með því að gera óheimilt að nema brott líffæri eða lífræn efni úr líkama látinna einstaklinga hafi þeir lýst sig andvíga því eða brottnám sé af öðrum sökum talið brjóta í bága við vilja þeirra.“
Best að koma ákvörðun sinni á framfæri í gagnagrunninn
Hjá Embætti landlæknis er starfræktur gagnagrunnur þar sem unnt er að skrá afstöðu til líffæragjafar og segir í frumvarpi að tryggilegast sé að andstöðu sé komið á framfæri með þeim hætti. Einnig beri þó að virða það liggi áreiðanlega fyrir að hinn látni hafi lýst andstöðu sinni með öðrum hætti, til dæmis við nánasta vandamann. Þá ætti ekki að nema brott líffæri eða lífræn efni úr líkama látins einstaklings væri af öðrum sökum sérstakt tilefni til að ætla að það hefði verið á móti vilja hans, til dæmis ef fyrir lægi að það væri andstætt trúarbrögðum sem viðkomandi aðhylltist.
20-30 manns á ári þurfa líffæraígræðslu
Á heimasíðu Landlæknis segir að eftirspurn eftir líffæraígræðslum hafi vaxið jafnt og þétt í gegnum árin og nú þurfi um 25–30 sjúklingar hér á landi líffæraígræðslu á ári hverju. „Ekki er unnt að nýta líffæri nema í litlum hluta dauðsfalla en hver líffæragjafi getur bjargað lífi nokkurra einstaklinga. Mikill skortur er á líffærum til ígræðslu og því er áríðandi að sem flestir séu fúsir til að gefa líffæri.“
Árangur af líffæraígræðslum er yfirleitt góður að sögn Landlæknis. Ígræðsla líffæris bjargar ekki einungis lífi heldur geti hún einnig bætt lífsgæði. Margir lifa eðlilegu lífi með ígrætt líffæri, geta stundað vinnu og líkamsrækt. Konur með ígrætt líffæri geta stundum eignast börn.
Frumvarpið var samþykkt á þinginu í gær með 52 atkvæðum, tveir greiddu ekki atkvæði og níu voru fjarverandi við atkvæðagreiðsluna. Flutningsmenn frumvarpsins voru þingmenn Framsóknarflokksins, þau Silja Dögg Gunnarsdóttir og Willum Þór Þórsson.