Elín M. Stefánsdóttir bóndi í Fellshlíð hefur tekið við stjórnarformennsku hjá Mjólkursamsölunni og verður jafnframt fyrsta konan til þess að gegna hlutverki stjórnarformanns hjá fyrirtækinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá MS. Elín og eiginmaður hennar búa að Fellshlíð í Eyjafjarðarsveit og hafa verið bændur þar síðan 2002. Þau eiga 4 börn. Elín hefur setið í stjórn Auðhumlu og Mjólkursamsölunnar síðastliðin 6 ár.
Egill Sigurðsson, sem verið hefur stjórnarformaður frá árinu 2008, mun sitja áfram í stjórn fyrirtækisins, auk þess að sitja í stjórn nýs dótturfélags MS um erlenda starfsemi. Egill er jafnframt formaður stjórnar Auðhumlu. Auk Elínar, Ágústs, Egils og Þórunnar, situr Þórólfur Gíslason í stjórn MS sem fulltrúi Kaupfélags Skagfirðinga og er hann varaformaður. Varamenn í stjórn Mjólkursamsölunnar eftir breytinguna eru Ásvaldur Þormóðsson, Björgvin R. Gunnarsson, Jóhanna Hreinsdóttir, Laufey Bjarnadóttir og Sigurjón Rúnar Rafnsson.
Breytingar urðu nýlega á fulltrúum Auðhumlu í stjórn Mjólkursamsölunnar í kjölfar aðalfundar Auðhumlu, sem er aðaleigandi MS og hefur stjórn MS skipt með sér verkum. Ágúst Guðjónsson og Þórunn Andrésdóttir eru nýir aðalmenn í stjórn, en Þórunn var áður varamaður. Þau komu í stað Jóhannesar Torfasonar og Jóhönnu Hreinsdóttur, sem tók sæti í varastjórn. Þá var Björgvin R. Gunnarsson kosinn varamaður í stjórn í stað Sæmundar Jóns Jónssonar.
Haft er eftir Elínu í tilkynningunni að hún hafi mikla ástríðu fyrir því að landbúnaður á Íslandi dafni sem best og að rekstur Mjólkursamsölunnar og framleiðsla mjólkurvara sé grunnstoð kúabúskapar á Íslandi. „Ég vil sjá Mjólkursamsöluna dafna sem best í framtíðinni. Það eru framundan margar áskoranir fyrir mjólkuriðnaðinn í kringum endurskoðun á búvörusamningum, tollasamninginn við ESB, aukinn innflutning og fleiri þætti, sem geta haft veruleg áhrif á fyrirtækið sem er í eigu okkar kúabænda.“