„Það er engin launung á því að við Sjálfstæðismenn í Eyjum erum mjög ósátt við framgöngu Páls í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna,“ segir Jarl Sigurgeirsson, formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum, í Fréttablaðinu í dag, um Pál Magnússon, þingmann Sjálfstæðisflokksins og oddvitann í Suðurkjördæmi.
Í viðtali við Fréttablaðið í dag, segir Jarl Pál „launa illa þá vinnu“ sem hann sjálfur og margir Sjálfstæðismenn lögðu á sig fyrir Pál og flokkinn í aðdraganda síðustu þingkosninga.
Framboðið, Fyrir Heimaey, var sigurvegari kosninganna í Vestmannaeyjum en Íris Róbertsdóttir, oddviti flokksins, er nú nýr bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum, Fyrir Heimaey, vann góðan sigur í sveitarstjórnarkosningunum, fékk þrjá menn kjörna og myndaði nýjan meirihluta með Eyjalistanum.
Sjálfstæðismenn töpuðu meirihluta sem þeir hafa haft undanfarin tólf ár og fengu einnig þrjá menn kjörna.
Í umfjöllun Fréttablaðsins segir, að vináttusamband Írisar og Páls Magnússonar hafi skipt máli í aðdraganda kosninga, og að Páll hafi ekki stutt við bakið á framboði Sjálfstæðisflokksins í Eyjum. Í ljósi þess hve mjótt var á munum, þá hafi það skipta miklu máli þegar upp var staðið.