Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, tilkynnti stjórn bandalagsins í morgun að hún muni ekki sækjast eftir endurkjöri á þingi þess sem fram fer í október næstkomandi. Elín Björg mun þó gegna starfinu áfram þar til að nýr formaður verður kjörinn. Með því að tilkynna félögum sínum um ákvörðunina vill Elín Björg hún þeim sem gætu haft áhuga á að bjóða sig fram tíma til að undirbúa framboð sitt.
Hún hefur verið formaður BSRB í tæp níu ár og í tilkynningu segir hún að verkefnin á undanförnum árum hafi verið bæði gefandi og krefjandi. Það hafi verið Elínu Björgu mikil ánægja að hafa fengið að sinna þeim verkefnum sem henni voru falin.
Bandalagið hafi á undanförnum árum tekist á við mörg stór og mikilvæg mál. „Það hefur verið ánægjulegt að sjá þann árangur sem við höfum náð. Það er mín skoðun að það sé hollt fyrir bandalagið að endurnýja forystuna reglulega og í því ljósi tók ég þá ákvörðun að stíga til hliðar á þinginu okkar í haust.“