Matsfyrirtækið S&P Global staðfesti í dag A/A-1 lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs fyrir langtíma- og skammtímaskuldir í innlendum og erlendum gjaldmiðlum með stöðugum horfum. Það sama gerði Fitch.
Að sögn matsfyrirtækisins endurspeglar þessi einkunn sterkt stofnanaumhverfi og árangursríka stefnumótun, tiltölulega lága hreina skuldastöðu hins opinbera sem nemur um 30% af landsframleiðslu og háar þjóðartekjur á mann.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá matsfyrirtækinu.
Matsfyrirtækið S & P Global telur næmi hagkerfisins fyrir þróun í ytra umhverfi og sveiflukennt efnahagslíf hafa hamlandi áhrif á lánshæfiseinkunnir auk hættunnar á ofhitnun hagkerfisins.
Stöðugar horfur endurspegla það mat S&P að á móti hættunni á ofhitnun hagkerfisins vegi möguleikinn á hraðari bata efnahagsreikninga hins opinbera og þjóðarbúsins á komandi árum.
Nefnt er sérstaklega að matsfyrirtækið búist við „kólnun“ í hagkerfinu á næstu árum, eftir mikinn efnahagslegan uppgang sem líkja má við ofhitnun.
Hagvaxtarspá fyrirtækisins gerir ráð fyrir 2 til 3 prósent hagvexti á næstu þremur árum. Þá segir fyrirtækið að það gæti farið svo, að miklar launahækkanir á vinnumarkaði, vegna endurnýjar kjarasamninga á næstu árum, geti dregið úr samkeppnishæfni þjóðarbússins.
Bent er á það í umfjöllun fyrirtækisins, að staðan sé þó um margt viðkvæm. Þannig geti samdráttur í vexti í ferðaþjónustu haft ýmis hliðaráhrif eins og lægra fasteignaverð og veikara gengi krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyndum.