Samtals hafa fjárfestar skráð sig fyrir um 30 prósent hlut í Arion banka í hlutafjárútboði bankans, að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag. Verðmiðinn á bankanum í útboðinu er á bilinu 133 til 155 milljarðar króna, eða sem nemur um 0,6 til 0,7 sinnum eigið fé.
Þegar íslenska ríkið seldi 13 prósent hlut sinn í bankanum, fékk það 23,4 milljarða króna, og var verðmiðinn á bankanum á þeim tíma 180 milljarðar króna.
Kaupþing og vogunarsjóðurinn Attestor Capital hyggjast selja að lágmarki 22,6 prósent í útboðinu en að hámarki um 41 prósent.
Líkt og Markaðurinn greindi frá var pantanabók fyrir um fjórðungshlut í bankanum orðin full á þriðjudag. Hafa erlendir fjárfestingarsjóðir verið fyrirferðarmestir þeirra sem hafa skráð sig fyrir hlut, að því er segir í Fréttablaðinu.