Kjararáð neitar að afhenda Fréttablaðinu afrit af fundargerðum sínum. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag, og hefur blaðið kært synjunina.
Í umfjöllun Fréttablaðsins kemur fram, að kjararáð líti svo á að ráðið hafi ekki verið stjórnvald í tíð eldri laga sem um það giltu, og því geti það neitað að afhenda gögnin sem blaðið hefur beðið um, þar sem upplýsingalög eigi ekki við um starfsemi þess.
Fréttablaðið bað þann 28. nóvember á síðasta ári um afrit af fundargerðum ráðsins frá upphafi árs 2008 til dagsins í dag. Tæpum þremur vikum síðar var beiðnin ítrekuð og að auki beðið um afrit af bréfum frá þeim sem undir ráðið heyrðu til þess á sama tímabili.
Óhætt er að segja á ákvarðanir kjararáðs á undanförnum árum hafi verið umdeildar, og hafa aðilar vinnumarkaðarins, bæði Samtök atvinnulífsins og ASÍ, meðal annars mótmælt ákvörðunum ráðsins harðlega, og þá einkum og sér í lagi miklum launahækkunum ráðamanna í landinu, ráðherrum, þingmönnum og æðstu stjórnendum stofnanna ríkisins.
Í umfjöllun Fréttablaðsins kemur fram, að ráðið telji sig ekki þurfa að afhenda gögnin, þar sem gögnin sem beðið er um séu frá gildistíma eldri laga. Samkvæmt núgildandi lögum um kjararáð gilda stjórnsýslu- og upplýsingalögin.
Formaður kjararáðs er Jónas Þór Guðmundsson hrl.