Nýkjörnar sveitarstjórnir taka við alls staðar í íslenskum sveitarfélögum í dag, 15 dögum eftir kjördag. Fráfarandi sveitarstjórnir hafa haldið umboði sínu hingað til. Meirihlutar hafa verið myndaðir undanfarnar tvær vikur mjög víða um land og daglegt líf í stjórnkerfi sveitarfélaganna að ná á sig mynd á ný.
Skulu allar sveitarstjórnir funda eigi síðar en 15 dögum frá því þær taka við, það er að segja í dag. Í lögum um sveitarstjórnir segir að sá fulltrúi í nýkjörinni sveitarstjórn sem á að baki lengsta setu í sveitarstjórninni boði til fyrsta fundar ekki síðar en 15 dögum eftir að hún tekur við störfum eftir kosningar. Hann stýrir fundi þar til oddviti hefur verið kjörinn. Hafi tveir eða fleiri fulltrúar átt jafnlengi setu í sveitarstjórninni fer aldursforseti þeirra með verkefni samkvæmt þessari málsgrein. Fyrsta fund skal boða með minnst fjögurra daga fyrirvara.
Greint var frá því í morgun að meirihlutaviðræður Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Vinstri grænna og Pírata í Reykjavík hafa gengið vel undanfarna daga, og þykir líklegt að nýr meirihluti verði kynntur í vikunni.