Nýr meirihluti Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna var kynntur í rjóðri við Breiðholtslaug í dag.
Þar kom fram að Dagur B. Eggertsson oddviti Samfylkingar mun halda áfram sem borgarstjóri Reykjavíkur. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir oddviti Viðreisnar verður formaður borgarráðs og Pawel Bartoszek annar maður á lista Viðreisnar verður forseti borgarstjórnar í 3 ár en Dóra Björt Guðjónsdóttir oddviti Pírata mun gegna því hlutverki í eitt ár. Hún verður einnig formaður í sameinuðu mannréttinda- og lýðræðisráði. Líf Magneudóttir oddviti vinstri grænna verður varaformaður borgarráðs og formaður nýs ráðs umhverfis- og heilbrigðismála. Sigurborg Ósk Haraldsdóttir annar fulltrúi Pírata verður formaður samgöngu- og skipulagsráðs.
Skúli Helgason hjá Samfylkingu verður áfram formaður skóla- og frístundaráðs og Heiða Björg Hilmisdóttir einnig hjá Samfylkingu verður formaður velferðarráðs. Þá verður Pawel formaður menningar- og íþróttaráðs fyrsta árið en Hjálmar Sveinsson tekur svo við.
Í kynningu á meirihlutanum í Breiðholtinu í morgun kom fram að fulltrúarnir telja lítið sem sundri þeim, og þeim mun meira sem sameini þessa fjóra flokka. Um sé að ræða „breiðan og frjálslyndan félagshyggju meirihluta“, þar sem sterk áhersla sé á „grænu málin“.
Í fréttatilkynningu frá meirihlutanum segir að umhverfismál, jafnréttismál, lýðræði, samfélag fyrir alla, þjónusta borgarinnar, húsnæðismál og borgarlína verði meginatriði hjá nýjum meirihluta. Nánari útfærslur hafa ekki verið kynntar.
Ný borgarstjórn tekur við á fyrsta borgarstjórnarfundi sínum sem haldinn verður þann 19. júní næstkomandi.