Hagnaður hátæknifyrirtækisins Skagans 3X nam 339 milljónum króna í fyrra og jókst um 37 prósent á milli ára. Frá þessu er greint í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins, í dag.
Hjá fyrirtækinu starfa um 90 manns við hönnun, þróun og framleiðslu. Fyrirtækið hefur verið burðarrás í atvinnulífi á Akranesi frá stofnun, en fyrirtækið hyggur á mikinn vöxt á næstu misserum. Það hlaut nýsköpunarverðlaun í fyrra og hefur lengi verið meðal helstu tæknifyrirtækja hér á landi, þegar kemur að lausnum fyrir sjávarútveg og matvælaiðnað.
Veltan var um 5,7 milljarðar króna á árinu borið saman við 4,3 milljarða árið 2016, að því er fram kemur í nýbirtum ársreikningi þess, sem vitnað er til í umfjöllun Markaðarins.
Stjórn fyrirtækisins hefur lagt til að á þessu ári verði allt að 340 milljónir króna greiddar í arð til hluthafa, félagsins IÁ Hönnunar, en það er í eigu Ingólfs Árnasonar, stofnanda og framkvæmdastjóra Skagans, og eiginkonu hans.