„Við stofnendur Víðis ehf., sem rekið hefur 5 matvöruverslanir á höfuðborgarsvæðinu undir sama nafni, höfum frá og með deginum í dag hætt rekstri þeirra,“ segja Eiríkur Sigurðsson og Helga Gísladóttir, eigendur Víðis, í yfirlýsingu sem birt er í Morgunblaðinu í dag.
Í henni segir að því miður hafi reksturinn ekki gengið nægilega „enda erfitt
að keppa við aðila sem hafa markaðsráðandi
stöðu á grundvelli
stærðar og stuðnings frá helstu lífeyrissjóðum
landsins“.
Má gera ráð fyrir að þarna sé átt við Haga, sem rekur verslanir undir merkjum Bónus og Hagkaup, en stærstu eigendur þess fyrirtækis eru lífeyrissjóðir.
Ekki liggur fyrir hvort óskað hafi verið eftir gjaldþrotaskiptum, eða hvort fyrirtækið einfaldlega hættir starfsemi.
Stéttarfélagið VR, þar sem starfsmenn Víðis eru margir hverjir félagsmenn, hefur fengið upplýsingar frá starfsmönnum um að Víðir sé á leið í þrot, en í Morgunblaðinu kemur fram að ekki hafi fengist staðfest hvernig staðan í reynd.
Það skýrist eflaust á næstu dögum.