Hlutabréf í Arion banka hækkuðu um 18,4% frá útboðsgengi, á fyrsta degi viðskipta með bréfin í Kauphöll Íslands. Í sænsku kauphöllinni nam hækkunin 11,5 prósent, en veltan með bréfin var mun meiri í Svíþjóð enn hér á landi.
Veltan var um 74 milljónir á Íslandi í rúmlega 60 viðskiptum, en í Svíþjóð var veltan tæplega 3 milljarðar króna.
Skráning Arion banka er næststærsta skráning í sögu Kauphallarinnar hér á landi og jafnframt fyrsta samhliða tvískráningin á mörkuðum Nasdaq á Norðurlöndunum í yfir áratug.
Kaupþing og vogunarsjóðurinn Attestor Capital seldu tæplega 29 prósenta hlut í útboðinu, sé tekið mið af útistandandi hlutafé bankans, en mikil umframeftirspurn var eftir bréfum í bankanum. Voru bréfin seld til almennra fjárfesta á Íslandi og í Svíþjóð sem og til fagfjárfesta frá Íslandi, Bandaríkjunum og Evrópu.
Íslenska ríkið seldi 13 prósent hlut sinn í bankanum fyrir um 23,4 milljarða króna, í aðdraganda skráninga bankans á markað.