Aðgerðarhópurinn „Hvar er Haukur“ stóð fyrir fánaskiptum á þaki Stjórnarráðsins í dag, af því tilefni að nú er liðið á fjórða mánuð frá því fréttist að því að Hauks Hilmarssonar væri saknað eftir loftárás Tyrkja á sjálfstjórnarsvæði Kúrda í Sýrlandi. Haukur barðist við hlið Kúrda gegn Islamska ríkinu í Raqqa og síðar gegn innrás Tyrkja í Afrín. Lík Hauks hefur ekki fundist og í raun engin sönnun þess að hann sé látinn.
Í fréttatilkynningu frá hópum segir að óskum fjölskyldu Hauks um að Tyrkir verði krafðir svara um það hvað varð um lík þeirra sem féllu í Afrín hafi utanríkisráðuneytið svarað á þann veg að það fylgi ráðleggingum tyrknesku lögreglunnar og vilji því ekki bera þessa spurningu undir stjórnvöld í Tyrklandi.
„Ennfremur telur ráðuneytið, þrátt fyrir að alþjóðlegi stríðsglæpadómstóllinn í París telji tyrknesk stjórnvöld sek um stríðsglæpi gegn Kúrdum, að þar sem Tyrkir segist sjálfir fara að alþjóðalögum á átakasvæðum sé ekki ástæða til að óttast að líkin liggi enn á víðavangi. Ráðuneytið hefur því ekki fengist til að spyrja tyrknesk stjórnvöld hvers vegna Rauða krossinum sé ekki leyft að leita að líkum á svæðinu. Forsætisráðuneytið hefur neitað að taka við málinu enda telur forsætisráðherra að Utanríkisráðuneytið vinni að því „af heilindum“,“ segir í tilkynningunni.
Hópurinn segir framgöngu fánaskiptagjörninginn kallast á við fánaaðgerð á vegum anarkista fyrir réttum 10 árum, en þá flaggaði Haukur Hilmarsson byltingarfána Jörundar Hundadagakonungs á þaki Stjórnarráðsins.