Guðmundur Óskar Pálsson og Helgi Kristinn Halldórsson munu opna útibú á mexíkóska veitingastaðnum sínum Chido þar sem Borðið var áður til húsa. Samkvæmt Guðmundi verður boðið þar upp á „háklassa skyndibita.“ Þetta kemur fram í umfjöllun á vef Vísis fyrr í dag.
Staðurinn yrði sá fjórði í Chido-keðjunni, en fyrir eiga þeir Guðmundur Óskar og Helgi Kristinn þrjá staði í Danmörku, þar af einn í Álaborg og tvo í Árósum. Systir Guðmunds, Vigdís Ingibjörg Pálsdóttir, mun sjá um rekstur á staðnum á Íslandi.
Samkvæmt lýsingu á heimasíðu Chido verður þar í boði mexíkóskur skyndibiti eins og hann þekkist best, frískur og heimatilbúinn. Guðmundur segir í samtali sínu við Vísi að boðið verði upp á „háklassa skyndibita“. Einnig bætir Vigdís við að matseðilinn verði svipaður og í Danmörku, þrátt fyrir að staðurinn heima verði aðeins stærri. Hún segir stefnuna setta á opnun Chido í lok ágúst, en nefnir á að erfitt sé að festa það með svo miklum fyrirvara.
Chido opnar á Ægissíðu 123, en það er í sama húsnæði og veitingastaðurinn Borðið var áður og sjoppan 107 þar á undan. Borðið hætti rekstri sínum fyrr í þessum mánuði og nefndi þar töf á vínveitingaleyfi sem höfuðástæðu lokunarinnar.