Afkoma VÍS á öðrum ársfjórðungi verður að óbreyttu verri en afkomuspá hafði gert ráð fyrir, að því er fram kemur í afkomuviðvörun frá VÍS á vef kauphallar Íslands.
Ein stærsta ástæðan fyrir þessari stöðu eru stjórtjón sem lendir á VÍS að bæta. Þar á meðal er brunatjón í Perlunni og einn almennur aukinn tjónaþungi á síðustu þremur mánuðum.
Reiknað er með því að afkoman verði um 700 milljónum lakari en afkomuspá hafði gert ráð fyrir. Þessi staða étur upp nær allan hagnað sem reiknað hafði verið með. Afkomuspáin hafði reiknað með 792 milljóna króna hagnaði í stað 92 milljóna.
Markaðsvirði VÍS er nú 29,4 milljarðar króna, en verðmiðinn á félaginu hefur hækkað um 32,7 prósent á undanförnum 12 mánuðum og um rúmlega 18 prósent á árinu 2018.
Stærsti hluthafi þess er Lífeyrissjóður verslunarmanna með 9,97 prósent hlut.
„Félagið heldur áfram að sjá kröftugan vöxt í iðgjöldum og er samsett hlutfall undanfarinna 12 mánaða í lok júní áætlað 98%. Vænt samsett hlutfall fyrir árið 2018 er einnig 98%, þar af nema áhrif tveggja stórtjóna á öðrum ársfjórðungi um þremur prósentustigum á samsett hlutfall ársins. Afar óvenjulegt er að tvö stórtjón af þessari stærðargráðu verði á sama árinu, hvað þá á sama fjórðungnum. Bæði tjónin eru af umfangi sem ekki hefur sést hjá VÍS síðan í óveðrinu í mars 2015 og brunanum í Skeifunni sumarið 2014,“ segir í afkomuviðvöruninni.