Óskað hefur verið eftir fundi í utanríkismálanefnd Alþingis vegna þeirra aðgerða sem bandarísk stjórnvöld hafa gripið til, á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó, þar sem börn hafa verið skilin frá foreldrum sínum á meðan réttað er í máli foreldra þeirra. Börnin eru geymd í þar til gerðum búrum, í mörgum tilvikum.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, segir í viðtali við Fréttablaðið í dag að afstaða stjórnvalda á Íslandi sé skýr. Hagsmunir og réttindi barna eigi ávallt að vera í fyrirrúmi. „Miðað við þær fréttir sem ég hef séð þá samræmist þetta ekki þeim gildum sem við aðhyllumst um að réttindi barna séu ávallt í fyrirrúmi. Við erum ekki ein um þá skoðun. Til að mynda hafa allar núlifandi forsetafrúr Bandaríkjanna gagnrýnt þetta,“ segir Guðlaugur Þór í viðtali við Fréttablaðið.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og varaformaður utanríkismálanefndar, segir í viðtali við Fréttablaðið að framkoman við börn sé fyrir neðan allar hellur. „Þetta er ómannúðleg framkoma og vanvirðing við börn, mannréttindi þeirra og fjölskyldur í afar viðkvæmri stöðu. Að mínu mati verða bandarísk stjórnvöld að snúa strax af þessari leið að nota saklaus börn sem skiptimynt í umræðum um byggingu landamæraveggs,“ segir Rósa.
Mikil og hörð umræða á sér staða í Bandaríkjunum þessi misserin, vegna stefnum ríkisstjórnar Trumps og dómsmálaráðherrans Jeff Sessions, Repúblikana frá Alabama. Hann hefur meðal annars vitnað til biblíunnar þegar er verið að réttlæta aðskilnað barna frá foreldrum sínum.
Samtök sálfræðinga og geðlækna í Bandaríkjunum (APA) hafa mótmælt þessari stefnu harðlega, og hafa bent á í yfirlýsingum að áhrifin af aðskilnaði við aðstæður sem þessar, geti verið varanlega neikvæð og hættuleg heilsu barna.