Rekstur Stykkishólmsbæjar og Kjósahrepps í A-hluta sveitarfélaganna nær ekki að standa undir skuldsetningu, samkvæmt nýbirtri skýrslu Íslandsbanka. Heilt yfir landið hafi fjárhagur sveitarfélaganna hins vegar batnað með hærri skattstofni um auknum rekstrarafgangi.
Skýrslan var unnin upp úr ársreikningum sveitarfélaganna fyrir síðasta ár, en þar var skuldahlutfall þeirra reiknað ásamt hlutfalli veltufés af tekjum.
Skuldahlutfall A- og B-hluta sveitarfélaga er hæst í Reykjanesbæ, en þar eru skuldir rúmlega 150% af tekjum. Samkvæmt Íslandsbanka stendur rekstur sveitarfélagsins þó undir núverandi skuldsetningu þar sem veltufé frá rekstri er nægilega hátt hlutfall af tekjum. Þetta hlutfall er notað til að mæla hæfni sveitarfélaga til að standa undir afborgunum lána og er þriðja hæsta á öllu landinu í Reykjanesbæ.
Samkvæmt útreikningum Íslandsbanka stendur rekstur Vesturbyggðar, Skagafjarðar og Stykkishólmsbæjar, ekki undir skuldsetningu að öllu jöfnu í A- og B-hluta sveitarfélaganna. Sú staða gæti hins vegar gefið ranga mynd, en mestu skiptir hvernig rekstri er háttað í A-hluta, en þar er sjálfbær rekstur lykilatriði til þess að sveitarfélag geti sinnt lögbundnum verkefnum sínum.
Ef einblínt er á A-hluta sveitarfélaganna eru Stykkishólmsbær og Kjósahreppur einu sveitarfélögin á landinu þar sem rekstur stendur ekki undir skuldsetningu að öllu jöfnu. Skuldahlutfall Stykkishólms í A-hluta er um 140% af tekjum, á meðan veltufé frá rekstri nær um 5% af tekjum. Í Kjósahreppi er skuldahlutfallið um 180% af tekjum á meðan veltufé frá rekstri er um 4% af tekjum.
Tekjur jukust og skuldir lækkuðu
Heilt yfir jukust þó tekjur sveitarfélaga samhliða því að skuldir lækkuðu.Tekjur A-hluta sveitarfélaganna jukust um 316 milljörðum króna á árinu 2017, en það er 9% aukning milli ára. Hlutdeild tekna sveitarfélaganna í tekjum hins opinbera hefur einnig aukist, en hún stóð í 28,5% og hefur ekki verið hærri í a.m.k. 15 ár.
Sömuleiðis lækkaði hlutfall skulda á móti eignum sveitarfélaganna, en það stóð í 45% á árinu 2017. Hlutfallið hefur farið lækkandi frá árinu 2009, en þá náði það hámarki í 73%.