Verkfall ljósmæðra hefst að óbreyttu um miðjan næsta mánuð. Ekkert hefur gengið að skapa sátt og ná samningum í kjaradeilu ljósmæðra og ríkisins.
Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður kjaranefndar Ljósmæðrafélags Íslands, sagði í viðtali við RÚV að ákveðið hefði verið, að til verkfalls gæti komið um miðjan næsta mánuð, eftir árangurslausan fund með sáttasemjara.
Ljósmæður felldu kjarasamning sem fulltrúar þeirra og íslenska ríkisins undirrituðu í maí. Rafræn atkvæðagreiðsla fór fram um samninginn og stóð yfir í viku en henni lauk á miðnætti í gær. Um 87 prósent félagsmanna tóku þátt í atkvæðagreiðslunni en 63 prósent þeirra felldu samninginn.
Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari hefur látið hafa eftir sér, að deilan sé snúin og erfið, en Bjarni Benediktsson sagði í maí mánuði, þegar deilan stóð sem hæst, að kröfur ljósmæðra væru óaðgengilegar.
Þessu hafa ljósmæður alfarið hafnað, og krafist þess að menntun þeirra verði metin til launa, en að baki ljósmæðrastarfinu liggur sex ára háskólanám.