Stjórnvöld hafa tilhneigingu til að forgangsraða hernaðarlegu öryggi, þrátt fyrir að íslenskur almeninngur telur helstu ógnir við öryggi sitt steðja að á öðrum sviðum. Þetta segir Silja Bára Ómarsdóttir aðjúnkt í stjórnmálafræði í nýrri grein sinni.
Í greininni, sem birtist í nýjasta tölublaði Stjórnmála og stjórnsýslu, er farið yfir niðurstöður skoðanakönnunar sem lögð var fyrir á vegum Félagsvísindastofnunnar Háskóla Íslands í lok árs 2016. Tæplega fimm þúsund manns svöruðu könnuninni, en í henni voru 18 spurningar sem snerust allar um utanríkis-og alþjóðamál á einhvern hátt.
Umhverfis-og efnahagsmál algengasta ógnin
Skoðanakönnunin fól meðal annars í sér spurningu um hver helsta ógn viðmælendur teldu að ríkið stæði frammi fyrir, en um 67% þeirra nefndu ýmist náttúruhamfarir, umhverfisvá eða óstöðugleika í efnahagsmálum. Einungis 5,8% töldu hryðjuverk vera stærstu ógnina og 1,8% nefndu sömuleiðis kjarnorkuvá eða vopnuð átök.
Í greininni segir að þessi röðun bendi til þess að almenningur telji umhverfislegt og félagslegt öryggi mikilvægara forgangsmál stjórnvalda en aðgerðir gegn hryðjuverkahópum eða öðrum sem snúa að hernaðarlegu öryggi. Einnig bendir Silja Bára á að þrátt fyrir mikla fjölgun hryðjuverkaárása í nágrannalöndum og verulega ummfjöllun um þau í fjölmiðlum þá settu einungis 31,6% svarenda hryðjuverk í eitt af sínum fimm efstu sætum.
Í annarri spurningu könnunarinnar voru þáttakendur beðnir um að velja eitt atriði sem þeir töldu helst tryggja öryggi ríkisins á alþjóðavettvangi. Þar var vinsælasti valkosturinn sá að Ísland ættu að halda friðsamlegum tengslum við nágrannaríki sín (41%), en Atlantshafsbandalagsaðild (17%) og önnur vestræn samvinna (7%) skoruðu lægra.
Í ljósi þessara nefnir Silja samþykkis Alþingis á öryggisstefnu fyrir Ísland í apríl 2016. Stefnan lagði áherslu á samstarf annarra landa í varnarmálum, þrátt fyrir tillögur þverpólitískrar þingnefndar, um að megináhersla ætti að vera á umhverfisvá, náttúruhamfarir og netógnir.
Líta til Noregs
Í samtali við Kjarnann telur Silja Bára orðræðuna í kringum nýlega stofnun þjóðaröryggisráðs og vopnaburð lögreglu auk hraðrar framkvæmdar þessara aðgerða vera hluti af þá öryggisvæðingu á Íslandi sem er til þess gerð að vekja ákveðinn ótta gegn vopnuðum átökum.
Þá leggur Silja Bára einnig til aukna þátttöku almennings að stefnumótun í öryggismálum á Íslandi til að sporna við því misræmi sem liggur milli íslenskra stjórnvalda og viðhorfa almennings. Í því samhengi nefnir hún Noreg sem dæmi, en þar er hefur þverpólitísk hugveita fyrir varnarmál verið stofnuð sem bæta á samskipti milli stjórnvalda og þjóðar í þeim efnum.
Silja Bára mun kynna grein sína í Háskóla Íslands seinna í dag, en fyrirlestur hennar verður liður af útgáfuhófi tímarits Stjórnmála og stjórnsýslu.