Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, hefur verið kjörin formaður laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskur fulltrúi mun stýra nefndinni.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Pírötum.
Þórhildur Sunna var tilnefnd til formennskunnar af flokkahópi sínum Sósíalistum, demókrötum og grænum. Kjörtímabil nefndarformanns er til loka ársins 2019.
Hlutverk Þórhildar Sunnu sem formaður laga- og mannréttindanefndar eru að stýra fundum nefndarinnar í Strasborg og fundum nefndarinnar utan þingfunda. Formaður er fulltrúi nefndarinnar á opinberum vettvangi og samþykkir dagskrá hennar. Þá situr formaður nefndarinnar í framkvæmdastjórn Evrópuráðsþingsins.
Hún hefur setið á þingi Evrópuráðsins síðan í mars árið 2017. Á þeim tíma hefur hún eins og áður segir setið í laga- og mannréttindanefndarinnar og einbeitt sér að mannréttindamálum og baráttu gegn spillingu.
Sem fulltrúi á þingi Evrópuráðsins skrifaði hún álit um ábyrgð Isis/Daesh á þjóðarmorði og stríðsglæpum. Þá vann hún að skýrslu um Kaupmannahafnaryfirlýsinguna - stefnuyfirlýsingu ráðherraráðs Evrópuráðsins undir formennsku Dana þar sem áherslur þeirra á að draga úr sjálfstæði mannréttindadómstólsins eru harðlega gagnrýndar auk þess að hafa unnið að áliti um stöðu blaðamanna í Evrópu.
Þórhildur Sunna hefur setið á þingi fyrir flokk Pírata frá árinu 2016. Formaður þingflokks hefur hún verið síðan seinnihluta árs 2017. Hún lauk LL.B-próf (alþjóða- og Evrópulög) frá Háskólanum í Groningen, Hollandi, 2012. LL.M-próf (mannréttindi og alþjóðlegur refsiréttur) frá Háskólanum í Utrecht, Hollandi, 2013. Að námi loknu var hún starfsnemi hjá Alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum fyrir fyrrum Júgóslavíu 2014.