Fylgi Flokks fólksins mælist nú í 8,2% og hefur bætt við sig 2,6 prósentustig á einum mánuði. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun á fylgi stjórnmálaflokka hjá MMR.
Könnunin var framkvæmd dagana 12.-18. Júní síðastliðinn, en þar mældist Sjálfstæðisflokkurinn stærstur með stuðning 21,6% landsmanna. Þetta er rúm tveggja prósentustiga lækkun frá síðustu könnun þar sem flokkurinn mældist með 23,7% fylgi, og tæp fjögurra prósentustiga lækkun frá fylgi flokksins í síðustu þingkosningum.
Fylgi Vinstri grænna hefur aftur á móti hækkað lítillega, eða úr 12% í 12,7%. Fylgi Framsóknarflokks mældist nú 9,5%, miðað við 10,1% í síðustu könnun. Stuðningur við ríkisstjórnina mælist nær óbreyttur, eða í 50,1% miðað við 49,8% í síðustu mælingu MMR.
Stærstu breytingar á fylgi flokka átti sér stað innan Flokks fólksins, en hann mælist nú í 8,2%, samanborið við 5,6% í síðustu könnun. Fylgi Viðreisnar dalaði einnig nokkuð, en það mælist nú í 5,8% samanborið við 7,1% síðast.