Grímur Sæmundsen forstjóri Bláa lónsins gerir ráð fyrir að ná meiri tekjum af hverjum viðskiptavini þrátt fyrir að fjöldi gesta fyrirtækisins muni að öllum líkindum. Þetta muni fyrirtækið gera með auknu vöru-og þjónustuframboði, samkvæmt viðtali Gríms við vefsíðuna túristi.is.
Í viðtalinu er greint frá vinsældum Bláa lónsins meðal erlendra ferðamanna, en í fyrra tóku starfsmenn lónsins á móti 1,3 milljónum gesta, á meðan 2,2 milljónir erlendra farþega flugu frá Keflavíkuflugvelli. Aðgangstekjur Bláa lónsins hafa einnig aukist gífurlega meðfram fjölgun ferðamanna á undanförnum árum, eða úr rúmum tveimur milljörðum króna árið 2012 upp í rúma sjö milljarða króna í fyrra.
Samkvæmt Túrista hefur fjöldi ferðamanna hins vegar staðið í stað það sem af er þessu ári og spár geri ráð fyrir litlum vexti í ár. Samkvæmt Grími hefur hins vegar verið markvisst unnið að því að hækka tekjur af hverjum gesti frekar en að fjölga þeim. Það verði m.a. gert með því að tvinna saman ólíka þjónustuþætti, vörur og upplifun gesta, auk fjölbreyttara framboðs á vörum og þjónustu. Þessu til stuðnings bendir hann á nýstofnað fyrirtæki í þeirra eigu sem býður upp á áætlunarferðir í Bláa lónið.
Kjarninn fjallaði nýlega um síðustu ársskýrslu Bláa lónsins, en samkvæmt henni jókst hagnaður fyrirtækisins um þriðjung milli ára. Hagnaður fyrirtækisins eftir skatta nam 31 milljón evra árið 2017, samanborið við 12,8 milljarða af rekstrartekjum. Tæplega þriðja hver króna sem kom í hendur félagsins árið 2017 var því hreinn hagnaður.