Kynjamismunun gæti verið meginástæða þess að kvenkyns háskólakennarar hljóta lægri einkunn á kennslumati en karlkyns félagar sínir og fái því síður vinnu við kennslu í háskóla. Þetta eru niðurstöður nýrrar greinar Katrínar Ólafsdóttur, lektors við viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík.
Í greininni, sem birtist í vorhefti Tímarits um viðskipti og efnahagsmál, fjallar Katrín um kynjahlutföll í háskólum í hinum vestræna heimi. Hlutfallið er nokkuð ójafnt, en í Bandaríkjunum og Evrópu eru einn af hverjum fimm viðskiptafræðiprófessorum í fullu starfi konur, þrátt fyrir að helmingur grunnnema í viðskiptafræði sé kvenkyns.
„Lagnirnar leka“
Katrín segir þetta misræmi milli kynjahlutfalls nemenda og kennara eiga að vera tímabundið samkvæmt svokallaðri lagnakenningu (e. Pipeline theory), með tímanum eigi jafnt hlutfall nemenda að leiða til jafns hlutfalls kennara. Ekkert bendir þó til þess að það muni gerast fljótlega, en misræmið hefur breyst mjög hægt. „Lagnirnar leka,“ segir Katrín í greininni þegar hún bendir á hæga þróun í þessum efnum á síðustu árum.
Máli sínu til stuðnings skoðar Katrín kennslukönnun í 127 áföngum í grunnnámi viðskiptafræðideildar íslensks háskóla milli haustmánaða 2010 og 2015. Í þeim áföngum voru 40 kennarar, þar af 28 karlkyns og 12 kvenkyns.
Bitnar helst á óreyndum
Samkvæmt niðurstöðum var marktækur munur á mati nemenda á kennurum eftir því hvers kyns þeir væru, jafnvel þótt tekið væri tillit til reynslu, aðstoðarkennara og bekkjarstærð. Niðurstöðurnar voru í takt við aðrar rannsóknir, en kennsluaðferðir, frammistaða og aðgengi kvenkyns kennara fengu markvisst lægri einkunnir á kennslumati. Athygli vekur að kynjamisræmið virðist bitna helst á kennara sem hafa litla reynslu og vinna í fullu starfi, en virðist minnka með reynslu og eftir starfshlutfalli.
Samkvæmt Katrínu mætti rekja hluta misræmisins til kynjamismununar, en hún hafi ekki verið mæld hér á landi með þessum hætti hingað til. Þar sem árangur háskólakennara í starfi sé að einhverju leyti mældur með kennslukönnun sé hins vegar hætt við því að mismununin sjálf valdi ójöfnu kynjahlutfalli meðal háskólakennara. Því setur hún spurningamerki við notagildi kennslukannanna sem mælikvarða á gæði kennslu og segir þær geta lagt sitt af mörkum til að halda „lögnunum lekandi.“