Bandaríska fyrirtækið Alliance Family of Companies hefur keypt ráðandi hlut í íslenska tæknifyrirtækinu Kvikna Medical ehf.. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Kvikna Medical ehf, sem var stofnað árið 2008, hannar, framleiðir og selur búnað fyrir upptöku og úrvinnslu á heilalínuriti. Í tilkynningunni segir að fyrirtækið hafi verið brautryðjandi í tölvuskýþjónustu á heilbrigðissviði og hafi rekið skýjaþjónustu fyrir heilalínurit í Bandaríkjunum síðan 2013. Á síðasta ári hafi verið unnin á aðra milljón klukkustunda af heilalínuriti á skýi Kvikna.
Heilalínurit er mest notað til greiningar á flogaveiki en á undanförnum árum hefur notkun þess aukist á gjörgæsludeildum og vökudeildum. Kvikna stefnir að því að taka forystu á þessu sviði.
Garðar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri Kvikna Medical, segir fjárfestinguna verða til þess að styrkja mjög starfsemi Kvikna Medical hér á landi auk þess sem aukinn kraftur verði settur í markaðssetningu á erlendum mörkuðum. „Kaup Alliance á ráðandi hlut í Kvikna Medical er mikil viðurkenning fyrir það starf sem hér hefur verið unnið og staðfestir að við erum á réttri leið,“ segir hann.
Alliance Family of Companies býður upp á þjónustu við greiningu á taugasjúkdómum og er stærsta fyrirtæki Bandaríkjanna á því sviði. Alliance er jafnframt á lista Inc 500 yfir þau fyrirtæki sem hraðast vaxa í Bandaríkjunum, segir í tilkynningunni.
Justin Magnuson, framkvæmdastjóri Alliance Family of Companies, segir að fyrirtækið hafi verið í viðskiptum við Kvikna Medical um margra ára skeið. „Lausnir Kvikna eru afar mikilvægar í okkar rekstri og þess vegna er þessi fjárfesting rökrétt næsta skref. Við höfum miklar væntingar til þess að aukið samstarf fyrirtækjanna leiði af sér ný tækifæri fyrir bæði fyrirtækin, og komi sjúklingum okkar til góða,“ segir hann.
Starfsmenn Kvikna á Íslandi eru um 20 og starfa flestir við vöruþróun. Samkvæmt tilkynningunni mun starfsmönnum hér á landi fjölga nokkuð í kjölfarið á þessum viðskiptum.