Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra vill hvorki draga neinar ályktanir né grípa til aðgerða gegn hugsanlegum neikvæðum áhrifum hvalveiða á útflutning annarra afurða. Þó hefur möguleiki um slíkt verið nefndur í skýrslum sem gerðar hafa verið fyrir ráðuneytið, en ráðherra telur þörf á nýrri og betri upplýsingum.
Þetta segir Kristján í svari sínu við fyrirspurn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur þingmanni Viðreisnar um hvalveiðar á Íslandi, sem birtist á vef Alþingis á dögunum.
Engin ástæða til afturköllunar
Spurning Þorgerðar var þríþætt, en fyrsti þátturinn snerist um möguleikann á afturköllun hvalveiðileyfa Hvals hf. í sumar í ljósi heildarhagsmuna Íslands og lítillar eftirspurnar á hvalaafurðum. Við því svaraði ráðherra að erfitt væri að afturkalla leyfið þar sem sýna þurfi að það muni ekki vera til tjóns fyrir Hval hf. samkvæmt lögum. Bann við hvalveiðar yrði aðeins mögulegt með lagasetningu sem byggi á efnislegum rökum, almannahagsmunum og meðalhófi, en ráðherra telur slíkt ekki liggja fyrir á þessari stundu.
Þorgerður spurði einnig Kristján hvort ástæða væri til að óttast neikvæð áhrif hvalveiða á viðskipti með íslenskar sjávarútvegs- og landbúnaðarvörur og hvort hann væri tilbúinn að grípa til aðgerða gegn þeim ef svo væri. Kristján taldi ótímabært að draga ályktanir um slíkt og segist þurfa nýjar upplýsingar, en bætir þó við að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands taldi þjóðhagslega hagkvæmt að halda hvalveiðum áfram í skýrslu sinni frá 2010.
Geti haft áhrif á ímynd þjóðar
Kristján tók þó ekki fram að skýrsla Hagfræðistofnunnar reiknaði ekki hugsanleg áhrif hvalveiða á útflutning annarra afurða. Hins vegar er bent á í skýrslunni að neikvæð umfjöllun um hvalveiðar í erlendum fjölmiðlum geti haft áhrif á ímynd lands og þjóðar og hugsanlega skemmt fyrir markaðsetningu afurða á erlendri grundu.
Í skýrslu Hagfræðistofnunar kemur einnig fram að endurmeta þurfi þjóðhagsleg áhrif hvalveiða komi síðar í ljós að þau hafi neikvæð áhrif á ímynd Íslands út á við. Kristján tekur undir þörf á endurmati í svari sínu, en þar segist hann hafa óskað eftir því að Hagfræðistofnun uppfæri skýrsluna.