Bergþóra Þorkelsdóttir dýralæknir var metinn hæfasti umsækjandi af hæfnisnefnd fyrir skipun í embætti forstjóra Vegagerðarinnar. Þetta kemur fram í nýbirtum gögnum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.
Greint var frá skipun Bergþóru í embættið í gær, en hún samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið birti hana opinberlega fyrr í dag. Bergþóra er menntaður dýralæknir, en hún stundaði einnig nám í markaðsfræðum við Chartered Institute of Marketing í Bretlandi og nam rekstrar- og viðskiptafræði við Háskóla Íslands.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, setti ráðningarferlið í hendur Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra og samflokksmanni í Framsóknarflokknum, vegna tengsla hans við Bergþóru.
Í frétt mbl.is um málið í dag sagðist Lilja hafa lagt mikla áherslu að fullt gagnsæi ríkti í ráðningarferlinu , en það hafi verið sameiginlegt álit hennar og hæfnisnefndar að Bergþóra væri hæfasti umsækjandinn um stöðuna.
Álit hæfnisnefndarinnar, sem finna má hér, raðar umsækjendum eftir átta hæfnisflokkum. Þeir eru eftirfarandi:
- Menntunarkröfur
- Stjórnunarreynsla
- Reynsla af rekstri og áætlunargerð
- Reynsla af stefnumótun
- Fagleg þekking á samgöngumálum, eða atvinnulífi
- Reynsla af þátttöku í alþjóðasamstarfi
- Hæfileikar til að miðla upplýsingum á góðri íslensku í mæltu og rituðu máli
- Góð kunnátta í ensku í mæltu og rituðu máli
Bergþóra fékk fullt hús stiga í sex flokkum af átta flokkum, en aðrir voru taldir hafa meiri faglega þekkingu á samgöngumálum eða atvinnulífi auk reynslu af þátttöku í alþjóðasamstarfi.
Líkt og mbl.is greinir frá vekur athygli að reynslu af verkfræðimenntun eða verklegum framkvæmdum væri ekki krafist þegar embættið var auglýst.