Fæðinga- og kvensjúkdómalæknar á Landspítalanum hafa af því miklar áhyggjur hvað taki við nú þegar verulega er byrjað að kvarnast úr hópi þeirra helstu samstarfsmanna, ljósmæðra. Engin lausn virðist í sjónmáli í deilu þeirra við fjármálaráðuneytið um kaup og kjör. Næstu vikur verða erfiðar og fækkunin mun segja strax til sín í minni þjónustu við sængurkonur.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem sérfræðilæknar Kvennadeildar Landspítalans sendu frá sér í dag.
„Við læknarnir getum nefnilega ekki unnið vinnuna okkar án ljósmæðra, svo einfalt er það. Samstarf okkar er mjög mikið og náið og við treystum á þær og þær á okkur. Þó að við reynum að láta öryggi fæðandi kvenna ganga fyrir með þeim mannafla sem við höfum vitum við að störf ljósmæðra snúast um svo miklu meira en að taka á móti börnum. Umönnun þungaðra kvenna og sængurkvenna, að sinna brjóstagjöf og fylgjast með nýburum er fyrst og fremst í þeirra höndum. Þessi störf geta stundum beðið en alls ekki alltaf. Við verðum að geta treyst á að þessir mikilvægu samstarfsmenn okkar séu til staðar. Annars mun starfsemin smám saman lamast,“ segir í yfirlýsingunni.
Enn fremur kemur fram að ljósmæður séu langelsta kvennastétt landsins og hafi þurft að vinna erfið störf af fórnfýsi og hugsjón öldum saman. Laun þeirra hafi oft ekki verið mikil á veraldlegan mælikvarða en þær eigi sérstakt sæti í hjörtum flestra kvenna sem fætt hafa barn og þakklæti maka þeirra og fjölskyldnanna allra. Þekking á meðgöngu og fæðingu hafi aukist á undangenginni öld og nú lifi miklu fleiri börn en áður og eigi ljósmæður sinn hlut í því að mæðra- og ungbarnadauði er hér með því lægsta sem gerist í heiminum.
„Við sættum okkur ekki við annað en að halda áfram á þeirri braut. Til þess að stuðla að þessari góðu útkomu hafa menntunarkröfur ljósmæðra aukist og það er ekki nema sanngjarnt að menntunin og ábyrgðin sem þær bera endurspeglist í laununum. Við getum líka öll spurt okkur hvort þær hefðu fengið sömu laun á öldum áður ef þær hefðu verið karlar. Menntun þeirra var heilmikil á þeirra tíma mælikvarða og þær þurftu oft að yfirgefa börn og bú vikum saman vegna þess ábyrgðarhlutverks sem þær gegndu.
Nú er kominn tími til að meta störf þeirra og sérþekkingu að verðleikum. Við sem þekkjum til fæðinga og starfa ljósmæðra efumst ekki um að þær standi við orð sín. Það er nefnilega ekki nóg að sýna mildi og kærleik til að hjálpa konu að fæða barn. Til þess þarf líka oft mikla þrautseigju og ákveðni og uppgjöf er ekki til í þeirra orðabók. Því segjum við: það verður að semja og það verður að gerast strax,“ segir í yfirlýsingunni.