Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að öll gagnrýni á fjölmiðla og skoðun á þeim sé í huga sumra aðför eða árás á þá. Það sé eins og þeir sem séu uppteknir af tjáningarfrelsi finnist að það eigi ekki við um stjórnmálamenn. Þetta kemur fram á Facebook-síðu hans í dag.
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi blaðamaður, er einn þeirra sem svaraði gagnrýni Brynjars á fjölmiðla en Brynjar hafði áður sagt að íslenskir fjölmiðlar væru veikasti hlekkurinn í íslensku samfélagi, stunduðu meiri pólitík en stjórnmálamenn og ættu heima í ruslflokki. Kolbeinn nefndi Brynjar ekki beint eða skrif hans en hugleiðingum Kolbeins er augljóslega beint að gagnrýni Brynjars frá því gær.
Brynjar segir í þessari nýju stöðuuppfærslu sinni að nú sé það svo að fjölmiðlar fjalli mjög um það sem er á borðum stjórnmálamanna. Hann spyr sig hverjir séu þá betur til þess fallnir að gagnrýna fjölmiðla. „Eða eiga fjölmiðlar að vera stikkfrí að því að þeir trúa því að þeir séu sérstaklega á vegum almennings? Vandamálið er að stundum eru þeir einfaldlega á eigin vegum.
Ég væri ekki að gagnrýna fjölmiðla ef ég teldi þá ekki gegna mikilvægu hlutverki. Að þeir skyldu vera að mínu mati veikasti hlekkurinn af þeim sem teljast valda- og áhrifahópa í samfélaginu fór auðvitað mikið fyrir brjóstið á mörgum og vilja nánari útskýringar á orðum mínum. Skal orðið við því,“ segir hann.
Brynjar bendir á að enginn neiti því að fjölmiðlar, sérstaklega þeir sem telji sig hlutlausa og óháða, hafi mjög mikil áhrif á skoðanamyndum og ákvarðanir annarra. Því sé mikilvægt að fagleg umgjörð þeirri sé sterk og að pólitískt skoðun eða gildismat einstakra fréttamanna verði ekki allsráðandi í fréttaumfjöllun. Ágætt sé að taka nokkur dæmi síðustu misseri til útskýringa þar sem skort hafi mjög á fagmennsku og margir fréttamenn hafi fest í eigin pólitísku skoðunum.
Fyrsta dæmið sem hann nefnir er fréttaumfjöllunin um uppreist æru. Hann segir að þar hafi margir fjölmiðlar verið með fréttaumfjöllun um að ráðherra og hans flokkur væri að hygla barnaníðingum og ítrekað látið að því liggja að lög væru brotin þótt alltaf lægi fyrir að ráðherra færi að lögum eins og forverar hans höfðu gert alla tíð.
„Svo má nefna Landsréttarmálið þar sem skorti mjög á fagmennsku eins og nýleg dæmi sanna. Kannski að fyrrverandi dómari við Mannrettindadómstól Evrópu hafi náð að leiðrétta mesta ruglið í fjölmiðlum um það mál. Svo er mjög algengt að einstakir fréttamenn geti ekki látið vera í fréttaumfjöllun að uppnefna íslenska og útlenda flokka sem þeir eru ekki sammála. Eru þeir ýmist nefndir öfgaflokkar, populískir og gjarnan hægri öfgaflokkar ef mikið liggur við. Einnig má taka mörg dæmi um fréttaumfjöllun fjölmiðla um meinta ólöglega vopnaflutninga íslensks flugfélags til Saudi Arabíu, kjaradeilu ljósmæðra, Brexit fréttir og svona mætti lengi telja. Umfjöllun um þessi atriði var oft á tíðum svo gildishlaðin og ekki síst hjá þeim sem telja sig fulltrúa almennings. Það er eins fjölmiðlar séu með enga ritstjórn.
Ég geri engar athugasemdir við að fréttamenn setji sínar skoðanir fram í leiðurum eða einstaka greinum í sínum fjölmiðlum. Heldur ekki við það að fjölmiðlar hafi pólitísk markmið. En þá verða þeir bara að viðurkenna það og hætta að þykjast vera hlutlausir og óháðir,“ segir hann að lokum.
Öll gagnrýni á fjölmiðla og skoðun á þeim er í huga sumra aðför eða árás á þá. Það er eins og þeir sem eru uppteknir af...
Posted by Brynjar Níelsson on Wednesday, July 4, 2018