Í gær barst 48 forstöðumönnum ríkisstofnana bréf frá kjararáði þar sem þeim er tilkynnt um úrskurð ráðsins um laun þeirra og starfskjör. Úrskurðurinn, sem dagsettur er 14. júní, var jafnframt birtur á vefsíðu kjararáðs í gær, en engin fréttatilkynning var send út um málið.
Frá þessu er greint í frétt Morgunblaðsins í morgun.
Úrskurðurinn er síðasta verk kjararáðs en Alþingi samþykkti að fella lög um ráðið niður þann 11. júní síðastliðinn. Ráðið hætti starfsemi um síðustu mánaðamót.
Ákvörðun kjararáðs tekur til beiðna um launahækkanir sem bárust frá forstöðumönnum ríkisstofnana á árunum 2016 og 2017 og tveimur fyrir þann tíma. Kveðið er á um mánaðarlaun og einingar fyrir störfin í úrskurðinum. Hann leiðir til þess að laun forstöðumannanna breytast mismikið en vegin meðaltalshækkun er um það bil 10,8 prósent. Hækkunin gildir frá 1. desember í fyrra, kemur fram í frétt Morgunblaðsins.
Þrettán forstöðumannanna eru með meira en eina milljón króna í föst mánaðarlaun eftir úrskurðinn. Hæstu launin fær forstjóri Landspítalans, 1.294.693 krónur, en næsthæstu rektor Háskóla Íslands, 1.251.843 krónur. Til viðbótar við hin föstu laun ákvarðaði kjararáð forstöðumönnunum mismunandi fjölda eininga á mánuði fyrir alla yfirvinnu sem störfunum fylgja.
Mánaðarlaun forstjóra Vegagerðarinnar eru nú 1.210.442 krónur og að auki skal greiða honum 40 einingar á mánuði fyrir alla yfirvinnu sem starfinu fylgir.