Á undangengnum 20 árum hefur aldrei verið erfiðara erfiðara að eignast fyrstu íbúð eins og í fyrra, miðað við íbúðarhúsnæði, ráðstöfunartekjur og aðgangi að lánsfé. Þetta kemur fram í nýju efnahagsyfirliti VR sem birtist í dag.
Samkvæmt VR hefur staðan á fasteignamarkaði versnað á síðustu tveimur árum, en í mælingum stéttarfélagsins fyrir árið 2015 voru fyrstu íbúðarkaup einnig sögulega erfið.
Árið 2015 var það helst hátt verð á fjölbýli sem hlutfall af launum sem torveldi kaup á fasteignum, en aðgengi að lánsfé var þá orðið betra en á tíunda áratugnum, þótt það hafi ekki verið jafngott og á árunum fyrir hrunið 2008.
Á síðustu tveimur árum hefur svo verð á fjölbýli hækkað enn frekar í hlutfalli við útborguð laun 25-34 ára, en aðgengi að lánsfé hefur staðið í stað. Sé litið til lengri tíma sést einnig að leiga á höfuðborgarsvæðinu sem hlutfall af launum þess aldurshóps hefur hækkað um 80% á síðustu tveimur áratugum.
Í fréttatilkynningu VR samhliða birtingu yfirlitsins segir að ljóst sé að aldrei hafi verið erfiðara að kaupa fyrstu íbúð. Útborguð laun ungs fólks hafi ekki haldið í við verðhækkun á fjölbýli og það verði æ erfiðara fyrir ungt fólk sem sé á leigumarkaði að leggja til hliðar fyrir íbúð.
Í yfirlitinu er einnig vikið að stöðu launa á vinnumarkaði, en þrátt fyrir háar tekjur séu þær lægri en að meðaltali í Evrópusambandinu þegar tekið er tillit til verðlags á vörum og þjónustu. Á þeim mælikvarða eru launin hærri í Noregi, Danmörk og Finnlandi, en verri í Svíþjóð.