Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, segir óveðursský liggja á sjóndeildarhringnum sem gætu valdið nýrri kreppu á alþjóðavísu. Jafnframt segir hann heiminn minna tilbúinn í efnahagslegar sviptingar nú og hann var fyrir áratug síðan, en bætir þó við að Ísland standi betur að vígi en flest önnur lönd. Þetta kemur fram í ítarlegri grein Gylfa í nýjasta tölublaði Vísbendingar sem kom út í gær.
Í grein sinni skrifar Gylfi um stöðu efnahagsmála í heiminum í dag, en samkvæmt honum hefur hún vænkast á undanförnum tíu árum með auknum hagvexti og meira eftirliti með fjármálastofnunum. Hins vegar séu ýmis viðvörunarljós í hagkerfum Vesturlanda og nýmarkaðsríkja farin að blikka, einkum vegna aukinnar skuldsetningar, vaxtamunaviðskipta og pólitískra átaka.
Skuldir og vaxtamunir
Gylfi segir þær aðgerðir sem ráðist var í í kjölfar fjármálakreppunnar árin 2007 og 2008 hafi virkað til að viðhalda framleiðslu-og atvinnustigi, en einungis slegið afleiðingum hennar á frest með aukinni skuldsetningu. Nú, þegar örvunaraðgerðir bandaríska seðlabankans eru á enda og vaxtahækkanir væntanlegar, skapi skuldsetningin vandamál fyrir önnur lönd sem tekið hafa lán í Bandaríkjadölum.
Þessi lönd séu að miklu leyti nýmarkaðsríki með hagkerfi sem eru mörg hver enn að skreppa saman, en vaxtahækkun Bandaríkjadalsins myndi neyða þau til að hækka sína innlendu vexti og þrengja enn frekar að efnahag sínum. Nokkur lönd hafi nú þegar lent í vanda vegna hækkunar dollaravaxta, til að mynda Argentína og Tyrkland. Líklegt er svo að Brasilía og Suður-Afríka bætist í hóp þessara landa sem eru á barmi fjármálakreppu í náinni framtíð.
Aukin skuldsetning felur einnig í sér vandamál á Vesturlöndum, en yfirvofandi vaxtahækkanir gæti sprengt fasteignabólur á mörgum stöðum og leitt þannig til aukinnar skuldabyrði heimila og gjaldþroti banka.
Pólitísk og efnahagsleg óvissa
Vegna aukinnar skuldsetningar ríkjanna gætu óvæntir atburðir í pólitík eða efnahagsmálum snúið gæfu þeirra við og hrundið af stað nýrri kreppu. Nýlegar tollahækkanir ríkisstjórnar Bandaríkjanna auk viðbragða Kína og Evrópusambandsins við þeim gætu til dæmis leitt til viðskiptastríðs sem valdi lækkun á eigna- og hlutabréfaverði í heiminum. Einnig sé mögulegt að skyndileg hækkun verðbólgu kalli á enn meiri vaxtahækkanir, en slíkt myndi lækka eignaverð og auka skuldabyrði.
Standa verr að vígi
Fari svo að skyndilega þrengi að í heimshagkerfinu segir Gylfi aukna skuldsetningu og lágt vaxtastig gera ríkjunum erfiðara fyrir að bregðast við heldur en þau gerðu fyrir áratug síðan. Ekki bæti úr skák að Bandaríkjaforseti hafi lækkað skatta í miðri uppsveiflu og gert lítið úr hvers kyns alþjóðlegu samstarfi. Þó bætir Gylfi við að Ísland sé betur í stakk búið til að bregðast við áföllum þessi misserin, en það sé vegna hárra vaxta, lágra opinberra skulda og þess að hækkun húsnæðisverðs sé ekki drifin áfram af vexti útlána.