Bandaríska stórfyrirtækið Google tilkynnti nýverið að smáforritið Mussila, sem framleitt er af íslenska fyrirtækinu Rosamosa, hafi verið valið til þess að vera kynnt í sérstöku fjölskyldurými sem Google var að opna.
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í morgun.
Fjölskyldurýmið, sem á ensku kallast Family link, er öruggt svæði fyrir börn til þess að vafra á netinu. Foreldrar geta fylgst með vefnotkun barna sinna á svæðinu og sérstök áhersla er lögð á að efnið sem er í boði innan rýmisins sé bæði fjölskylduvænt og fræðandi.
Í fréttinni segir að Mussila-leikurinn, sem kennir börnum grunnatriði í tónlist í gegnum skapandi leik og áskoranir, verði efstur á síðu Google-fjölskyldurýmisins og mæli Google sérstaklega með leiknum fyrir foreldra til að kynna börnum sínum. Fjölskyldurýmið sé komið til 33 landa en Ísland sé ekki enn þar á meðal.
Margrét Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri og annar stofnenda Mussila, segir í samtali við Morgunblaðið að einungis hafi verið valin inn smáforrit sem ætluð eru ákveðnum aldurshópi. „Google Play-store“ sé tiltölulega óritskoðaður vettvangur, en núna sé komið svæði þar sem foreldrar geta opnað reikning fyrir börnin sín og vitað að þau geta treyst þeim forritum sem er þarna að finna.
Hún segir jafnframt að aukin markaðssetning sé á næsta leiti. „Google er að fara að markaðssetja rýmið meira, þeir hafa ekki haft mjög hátt um þetta á meðan þeir eru að fínpússa og láta þetta virka fullkomlega. Núna ætla þeir að fara að leggja meiri áherslu á þetta rými og ætla að taka nokkur vel valin öpp og auglýsa þau sérstaklega. Við erum eitt af þeim öppum.“
Mussila-smáforritið verður haldið framarlega innan fjölskyldurýmisins í nokkrar vikur í röð og svo með reglulegum hætti eftir það, segir Margrét. Í viðtalinu kemur fram að þau séu búin að fara í gegnum nokkrar síur, fyrst þar sem leitarvél þeirra finnur forritið vegna góðrar einkunnar sem það er með í versluninni. Svo sé Google með sitt kennarateymi sem valdi úr þeim smáforritum sem komust í gegnum fyrstu síuna.
„Þetta er mjög góð auglýsing fyrir okkur en við eigum eftir að sjá hvað þetta skilar miklu. Fjölskyldurýmið er ekki orðið mjög stórt ennþá, en við sjáum til hvað verður. Ég hef mikla trú á því að þetta eigi eftir að vaxa mikið. Þetta er fyrst og fremst viðurkenning, að vera valin þarna inn. Þetta er ótrúlega stórt,“ segir Margrét við Morgunblaðið.