Skuldir barnafjölskyldna í hlutfalli við tekjur þeirra eru allt að sex sinnum hærri en skuldahlutfall barnlausra hjóna. Þetta kemur fram í nýjasta hefti Hagtíðinda, en þær eru hluti af tölfræðiverkefni um skuldir heimilanna sem stjórnvöld fólu Hagstofunni.
Í tölunum kemur fram að skuldastaða heimilanna hefur batnað töluvert á síðustu þremur árum, en fjölskyldum með lága greiðslubyrði og lágt hlutfall skulda af tekjum hefur farið fjölgandi frá árinu 2015. Á tímabilinu hafði rúmlega helmingur fjölskyldna lága greiðslubyrði, sem samsvarar undir 10% af ráðstöfunartekjum sínum. Í ár nálgaðist það hlutfall svo 60%.
Með því að skoða greiðslubyrði eftir fjölskyldugerð fást svo ítarlegri upplýsingar, en nær 60% hjóna án barna flokkast með lága greiðslubyrði. Til samanburðar er um þriðjungur hjóna með börn í sömu sporum, þ.e. með greiðslubyrði sem samsvarar 0-10% af ráðstöfunartekjum.
Sé skuldastaða sem hlutfall af tekjum skoðuð eftir fjölskyldugerð sést munur milli barnafjölskyldna og barnlausra hjóna enn betur. Algengast er að hjón án barna séu með skuldastöðu á bilinu 0-50% sem hlutfall af ráðstöfunartekjum en algengast er að hjón með börn hafi skuldastöðu sem nemur um 100-300% af þeirra ráðstöfunartekjum.
Ung hjón og ellilífeyrisþegar skýringin
Ein ástæða fyrir misræmi þessara tveggja hópa gæti verið sú að hjón með börn eru líklegri til að búa í stærra húsnæði. Auk þess samanstendur hópur barnlausra hjóna meðal annars af ungu fólki sem býr í ódýrara húsnæði og eldri hjónum sem greitt hafa skuldir sínar.
Í Hagtíðindum er skuldastaðan einnig flokkuð eftir tekju-og eignatíundum, en þar kemur fram að hæsta skulda- og greiðslubyrðin er meðal millitekjufólks. Byrði lágtekjufólks sé að jafnaði minni, en skýringin á því gæti verið sú að þeir tekjulægri séu eftir sem áður annars vegar ungt fólk sem geti búið í smærri heimilum og ellilífeyrisþegum sem skulda lítið.