Í þremur af sex fastaráðum Reykjavíkurborgar sitja fimm konur og tveir karlar. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag. Lög um jafna stöðu kvenna og karla kveða á um að hlutfall í ráðum og nefndum á vegum sveitarfélaga eigi að vera sem jafnast. Oddviti Vinstri grænna í borginni telur mikilvægt að allir flokkar í borgarstjórn leggist yfir málið að loknu sumarfríi.
Ráðin sem um ræðir, þar sem skilyrði jafnréttislaga eru ekki uppfyllt, eru mannréttinda- og lýðræðisráð, umhverfis- og heilbrigðisráð og velferðarráð. Jafnari skipting er í íþrótta- og tómstundaráði, skipulags- og samgönguráði og skóla- og frístundaráði.
Í lögum um jafna stöðu karla og kvenna segir að við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40 prósent þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Jafnréttisstofa annast eftirlit með að lögum þessum sé framfylgt.
Í samtali við Fréttablaðið segir Líf Magneudóttir oddviti Vinstri grænna að konur séu í meirihluta í borgarstjórn. Staðan sé flókin í ljósi fjölgunar borgarfulltrúa og breytts vinnufyrirkomulags en borgarstjórn þurfi að skoða málið í heild þegar hún kemur úr sumarfríi. „Það er á ábyrgð allra flokka að uppfylla jafnstöðulögin svo fremi því verði við komið.“