Drífa Snædal framkvæmastjóri Starfsgreinasambandsins gagnrýnir harðlega tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu sem kom fram samhliða birtingu skýrslu bandarískra stjórnvalda um mansal. Í stöðuuppfærslu á Facebook segir Drífa að enn bóli ekkert á aðgerðaráætlun gegn mansali og „enn telur ráðherra gagnrýnar skýrslur vera byggðar á misskilningi.“ Þá segir hún ráðuneytið skreyta sig með stolnum fjöðrum og baráttan gegn mansali sé keyrð áfram af einstaklingum innan kerfisins í stað þess að vera skipulögð af yfirvöldum sem eigi að fjármagna og framkvæma.
Ísland í 2. flokki - úrbætur nauðsynlegar
Í skýrslunni, sem unnin er einhliða af hálfu bandaríska utanríkisráðuneytisins, kemur meðal annars fram að Ísland uppfylli ekki lágmarks kröfur til útrýmingar á mansali í heiminum þó verið sé að stíga þýðingarmikil skref í þá átt. Ríkin eru flokkuð í fjóra flokka og er Ísland nú í 2. flokki, annað árið í röð. Ísland var í 1.flokki til ársins 2017.
Skýrslan segir að stjórnvöld hafi sýnt aukinn vilja með því að rannsaka fleiri mansalsmál og fjölgan starfsmönnum við þær rannsóknir. Náðst hafi að bera kennsl á möguleg fórnarlömb og almennt hafi vernd þeirra verið aukin. Hins vegar hafi stjórnvöld ekki uppfyllt lágmarks kröfur á nokkrum lykil sviðum. Enginn hafi verið ákærður eða sakfelldur sjö ár í röð hér á landi. Þekking á málaflokknum innan kerfisins er ábótavant, sem og vernd, aðbúnaður og aðstæður sem mögulegir þolendur búi við meðan mál þeirra eru til meðferðar í réttarvörslukerfinu.
Í skýrslunni er tillögum að úrbótum beint til Íslands. Meðal annars að auka verulega við tilraunir til að bera kennsl á fórnarlömb mansals, að beina þeim í réttar áttir til aðstoðar, að styrkja tilraunir til frekari rannsókna, saksókna og sakfellinga á manseljendum. Þá þurfi að auka við þjálfun lögreglu, saksóknara og dómara til að koma auga á mansalsbrot, byggja upp traust milli löggæslu, fórnarlamba auk þess sem nauðsynlegt sé að útvega þeim vernd og vinnuleyfi til að hvetja þau til að taka þátt í rannsókn málanna. Þá þurfi sérúrræði, til dæmis fyrir karlmenn og börn sem fórnarlömb mansals, og auka þjálfun við öflun sönnunargagna, svo ekki þurfi að reiða eins mikið á framburð vitna. Þá þurfi áherslu á að koma auga á þvinguð hjónabönd, vinnumansal og mansal almennt hjá innflytjendum, fylgdarlausum börnum og hælisleitendum. Þá þurfi að ljúka við aðgerðarátlun gegn mansali og henni þurfi að fylgja nægt fjármagn til innleiðingar og eftirfylgni.
Ný aðgerðaráætlun í haust
Í tilkynningu ráðuneytisins kemur fram að ýmislegt hafi verið að gert í þessum málaflokki.
„Íslensk stjórnvöld hafa lagt kapp á að bæta meðferð mansalsmála hér á landi, auka þekkingu á eðli og einkennum brotanna sem og að vernda þolendur brotanna og mæta þörfum þeirra. Aðgerðaráætlun gegn mansali var í gildi árin 2013-2016 og á grundvelli hennar var ráðist í fræðsluátak í samráði við alla hlutaðeigandi hér á landi. Yfir 2000 manns vítt og breytt um landið hafa nú þegar fengið fræðslu. Þá hefur Velferðarráðuneytið sett á laggirnar tvö teymi, þ.e. viðbragðsteymi sem leysir úr málum er varða húsnæði og þjónustu við meinta þolendur mansals og samráðsteymi sem kemur með tillögur að bættri þjónustu við þolendur.“
Þá segir að dómsmálaráðherra hafi sett í forgang vinnu við gerð nýrrar aðgerðaráætlunar gegn mansali sem verði lögð fram strax í haust. „Við gerð þeirrar áætlunar verður tekið mið af athugasemdum og ábendingum sem fram hafa komið í úttekt GRETA (Group of Experts on Action against Trafficking in Human Beings), nefnd sérfræðinga sem hefur það hlutverk að fylgja eftir innleiðingu Evrópusamnings um aðgerðir gegn mansali, sem Ísland hefur fullgilt. Helstu áherslur verða að efla fræðslu/þjálfun t.d. hjá lögreglu varðandi rannsóknir, vitundarvakning og gerð fræðsluefnis, efla þjónustu og úrræði fyrir þolendur, skoða úrræði fyrir gerendur og koma upp NRM (National refferral mechanism), sem myndi einnig tryggja áreiðanlegri tölfræði, svo eitthvað sé nefnt.“
Í tilkynningunni segir að Ísland muni þannig áfram skipa sér í fremstu röð þjóða sem berjast gegn masali í heiminum. „Nákvæm úttekt GRETA á stöðu mansalsmála á Íslandi er þýðingarmikil í því sambandi og gagnlegt innlegg í vinnu við nýja aðgerðaáætlun. Teymi á vegum GRETA var hér á landi fyrir stuttu við gerð úttektarinnar og vann hana í ítarlegu samráði við íslensk stjórnvöld. Niðurstöður hennar verða gerðar opinberar í haust.
Niðurstaðan vanþekking á íslensku réttarfari
Þá er haft eftir Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra að helsta gagnrýni skýrslunnar lúti enn að fjölda ákæra í mansalsmálum „og hlýtur sú niðurstaða að byggjast á vanþekkingu þeirra á íslensku réttarfari. Ákærur eru ekki gefnar út nema meiri en minni líkur séu á sakfellingu. Til samanburðar eru gefnar út um 1000 ákærur í mansalsmálum í Bandaríkjunum á ári sem hlýtur að teljast lágt hlutfall miðað við mannfjölda. Löggæslan hefur verið efld til muna hér á landi að undanförnu og meiri þungi lagður í fræðslu til handa þeim sem fara með rannsókn mála af þessu tagi. Við vinnum nú að gerð nýrrar aðgerðaráætlunar gegn mansali sem verður lögð fram í haust. Þar verður lögð áhersla á að aðgerðir séu raunhæfar, tímasettar og vel skilgreindar. Það þarf líka að stuðla að vitundarvakningu á meðal almennings um þessa tegund mála svo þau þrífist ekki í skugganum og rati frekar til lögregluyfirvalda. Það er óásættanlegt að einstaklingar séu hnepptir í ánauð af hvaða ástæðu sem er og íslensk stjórnvöld munu gera það sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir og uppræta slík brot á frelsi fólks,“ segir Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, um skýrsluna í tilkynningu ráðuneytisins.
Ekki haldið nægilega vel utan um þolendur
Drífa Snædal segir ráðuneytið skreyta sig með stolnum fjöðrum í tilkynningunni. Það fræðsluátak sem ráðist hafi verið í, ráðstefnur sem hafi verið haldnar og árverknisverkefni, hafi verið unnin af stéttarfélögum, lögreglunni og félagsþjónustunni án þess að sérstakt fjármagn hafi fengist til verkefnisins. „Enn er baráttan gegn mansali keyrð áfram af einstaklingum innan kerfisins í stað þess að vera skipulögð af yfirvöldum sem eiga að fjármagna og framkvæma fræðslu, eftirlit og vernd mansalsfórnarlamba. Enn erum við að missa fólk úr landi aftur í ömurlegar aðstæður af því við tökum ekki nógu vel utanum þolendur. Þolendur sem hafa verið misnotaðir í vinnu til að keyra áfram góðærið. Nú er enn boðuð aðgerðaráætlun gegn mansali en ekki hefur verið haft samband við þá sem best þekkja til (allavega innan stéttarfélaganna) til að vinna þessa áætlun. Það stendur ekki á okkur!!“ segir í stöðu uppfærslu Drífu.
Enn bólar ekkert á aðgerðaráætlun gegn mansali og enn telur ráðherra gagnrýnar skýrslur vera byggðar á misskilningi. Að...
Posted by Drífa Snædal on Wednesday, July 11, 2018