Árvakur hf., útgáfufélag Morgunblaðsins, og 365 miðlar hf., eigandi útgáfufélags Fréttablaðsins, hafa undirritað kaupsamning um kaup á 100% hlutafjár í Póstmiðstöðinni hf.. Þetta kemur fram í frétt á mbl.is.
Seljendur Póstmiðstöðvarinnar voru Fiskisund ehf., Stahan II ehf. og Hannes Hannesson. Póstmiðstöðin sér um móttöku söfnun, flokkun og flutning á póstsendingum, en fyrirtækið er meðal annars dreifingaraðili Fréttablaðsins.
Samkvæmt frétt Mbl verður eignarhlutföllum á fyrirtækinu að kaupum loknum þannig háttað að Árvakur fer með 51% eignarhlut í Póstmiðstöðinni, en að 365 miðlar fái 49%. Kaupverðið er ekki gefið upp.
Samruna hafnað fyrir áratug
Árvakur og 365 miðlar hafa áður reynt að sameina rekstur sinn, en árið 2008 tilkynntu félögin fyrirætlun sína að renna Fréttablaðinu inn í Árvakur gegn því að 365 myndi eignast 36,5 prósenta eignarhlut.
Samruninn var rökstuddur með þeim aðstæðum sem ríktu í samfélaginu á þeim tíma. Þar var þeim rökum meðal annars beitt að Árvakur myndi ekki lifa af nema samruninn yrði samþykktur. Fjárhagserfiðleikar félagsins væru einfaldlega það miklir að þetta væri eina leiðin til þess.
Samkeppniseftirlitið hafnaði hins vegar samrunanum í febrúar 2009. Í ákvörðun sinni sagði að það væri „mat Samkeppniseftirlitsins að samruni Árvakurs hf., Fréttablaðsins ehf. og Pósthússins ehf. muni skapa alvarleg samkeppnisleg vandamál og hindra þar með virka samkeppni á öllum mörkuðum málsins þar sem áhrifa gætir[...] Sökum þess er það mat Samkeppniseftirlitsins að ógilda beri samrunann.“
Í sameiginlegri yfirlýsingu 365 og Árvakurs er haft eftir Ingibjörgu S. Pálmadóttur, forstjóra 365 miðla, að alþekkt sé að rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi hafi verið erfitt. „Þessi kaup Árvakurs og 365 miðla eru liður í því að tryggja að áfram verði gefin út öflug dagblöð á Íslandi, og að innlendir aðilar, stórir og smáir, hafi aðgang að öflugri dreifingarþjónustu sem veitir einokunarþjónustu ríkisins samkeppni og aðhald,“ bætir hún við.
Haraldur Johanessen, framkvæmdastjóri Árvakurs, segir einnig að þróunin hafi verið sú erlendis að dagblöð hafi samnýtt dreifikerfi til að takast á við erfiðar markaðsaðstæður.
Álits Samkeppniseftirlitsins á kaupunum er enn beðið, en kaupsamningurinn er gerður með fyrirvara um samþykki eftirlitsins.