Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands prýðir forsíðu prentútgáfu bandaríska blaðsins The New York Times í dag, ásamt Donald Trump Bandaríkjaforseta og Theresu May forsætisráðherra Bretlands.
Myndin er tekin eftir leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins, NATO, í Brussel sem lauk í gær. Katrín og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, sóttu fundinn fyrir hönd Íslands, ásamt sendinefnd.
Svipurinn á Katrínu á myndinni er nokkuð óræður. Svo virðist sem Katrín sé annað hvort að njóta veðurblíðunnar, sem ætti að vera skiljanlegt hafandi verið í Reykjavík bróðurpart sumarsins, eða að henni finnist allt að því óbærilegt að standa þarna með leiðtogunum, Trump og May, auk þess sem smá má glitta í Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, sem rekur ekki beint pólitík sem rímar vel við lífssýn íslenska kollega hans.
Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði eftir fundinn í gær að meðlimir Atlantshafsbandalagsins hefðu fallist á kröfu hans um að auka fjárframlög ríkjanna til hernaðarmála, þrátt fyrir að hafa skrifað undir samþykkt á óbreyttu ástandi. Niðurstaða fundarins var sameiginleg yfirlýsing allra 29 aðildarþjóða NATO sem ítrekaði fyrri áætlanir um 2% útgjaldamark fyrir árið 2024.
Samkvæmt frétt Stjórnarráðsins ræddi Katrín sérstaklega um nauðsyn þess að efla þróunaraðstoð, mannúðaraðstoð og stuðning við flóttafólk innan sambandsins á fundinum.
Trump fór beint eftir fundinn í opinbera heimsókn til Bretlands, þar sem hann hefur lýst yfir efasemdum um áætlanir May um útgöngu landsins úr Evrópusambandinu, sem hann segir of linar. Útilokaði hann þannig fríverslunarsamning Breta við Bandaríkin sem hefur gert það að verkum að gengi pundsins á móti Bandaríkjadollars hefur fallið hratt það sem af er degi.