Ísland er þriðja besta land í heimi, ef marka má mælikvarða Boston Consulting Group á sjálfbærri hagþróun landa. Samkvæmt mælikvarðanum eru umhverfismál einnig með besta móti hér á landi, en efnahagslegur stöðugleiki mjög slæmur miðað við önnur lönd. Þetta kom fram í kynningu ráðgjafafyrirtækisins á mælikvarðanum sínum í gær.
Mælikvarðinn, sem ber heitið SEDA, er byggður á samansafn 40 hagvísa, en samkvæmt Boston er hann öflugt mótvægi við mælingar á landsframleiðslu ef bera á saman almenna velsæld milli þjóða. Í nýútgefinni mælingu skoðaði fyrirtækið 152 lönd og byggði á nýjustu gögnum í hverju landi fyrir sig.
Mælikvarðinn er eingöngu samsettur af hlutlægum gögnum sem til eru á hagstofu sérhvers lands og byggir ekki á gildismati eða skynjun viðmælenda. Honum er skipt upp í tíu undirflokka, en þeir eru eftirfarandi:
- Tekjur: Mældur í landsframleiðslu á mann
- Efnahagslegur stöðugleiki: Mælir verðbólgustig og hvort hagvöxtur sé stöðugur
- Atvinna: Mældur með atvinnuþátttöku og atvinnuleysi
- Tekjujöfnuður: Mælir dreifingu tekna meðal íbúa
- Borgarasamfélag: Mælir félagslega samheldni, þátttöku almennings í stjórnmálum og kynjajafnrétti
- Stjórnun: Mælir skilvirkni og gæði ríkisstofnana, þar með talið ábyrgð, stöðugleika og borgarafrelsi.
- Umhverfismál: Mælir gæði umhverfisins og stefnumótun í átt að viðhaldi og verndar þess
- Heilbrigði: Mælir aðgengi að heilbrigðisþjónustu, auk dánar-og sjúkdómstíðni
- Menntun: Mælir gæði menntakerfisins og aðgengi barna að því
- Innviðir: Mælir gæði vatns, samgangna og samskiptatækni
Best í umhverfismálum, verst í stöðugleika
Af 152 löndum er Ísland í þriðja sæti listans, en einungis Noregur og Sviss fá hærri einkunn yfir almenna velsæld. Verst stöndum við okkur í efnahagslegum stöðugleika, en þar vermum við 124. sætið, en í umhverfisflokknum erum við hins vegar á toppi listans.
Þrátt fyrir snarpa kreppu og mikinn efnahagsuppgang í kjölfarið er áhugavert hversu lítið SEDA-mælikvarði Íslands hefur breyst, en landið hefur haldist nokkurn veginn á sama stað frá árinu 2009.