Átta bókaútgefendur gagnrýna fyrirhugað samstarf Alþingis við Hið íslenska bókmenntafélag um útgáfu tveggja ritverka í tilefni aldarafmælis fullveldis Íslands. Útgefendurnir segja geðþótta ráða för þingsins og vinnubrögðin eiga að heyra fortíðinni til í sameiginlegri grein í Morgunblaðinu í morgun.
Samstarfið var kynnt með þingsályktunartillögu sem lögð var fram síðasta föstudag, en kosið verður um hana á Þingvöllum á morgun. Í tillögunni, sem leidd er af Steingrími J. Sigfússyni, ályktar Alþingi að ganga til samstarfs við Hið íslenska bókmenntafélag um útgáfu tveggja ritverka, annars vegar verks um Þingvelli í íslenskri myndlist og hins vegar nýs yfirlitsverks um sögu íslenskra bókmennta frá landnámi til 21. aldar.
Áætlað er að kostnaður Alþingis við samstarfið muni nema samtals um 25-30 milljónir króna, sem yrði deild niður í tíu milljóna króna útgjöld á hvert ár í þrjú ár. Í rökstuðningi fyrir samstarfinu segir í þingsályktunartillögu það vera „mjög vel við hæfi“ vegna 100 ára fullveldisafmælis á Íslandi í ár.
„Óljós tenging“ við fullveldisafmæli
Í grein bókaútgefenda í Morgunblaðinu í dag voru vinnubrögð Alþingis harðlega gagnrýnd, en höfundarnir telja að styrkirnir hefðu átt að fara í gegnum Miðstöð íslenskra bókmennta, sem annast opinberar styrkveitingar til bókaútgáfu. Samkvæmt þeim er 30 milljóna króna styrkveiting jafnhá upphæð og Miðstöðin fékk á síðasta ári, en þar dreifðist hún yfir á sjötta tug verka.
Bókaútgefendurnir segja enn fremur tenginguna við fullveldisafmælið óljósa og styrkveitinguna minna á Alþingi fyrri tíma þar sem styrkir til bókaútgáfu voru að stórum hluta háðir geðþótta þingmanna og ráðherra. „Vinnubrögðin við þessa styrkveitingu eiga hins vegar að heyra fortíðinni tryggilega til og okkur finnst með ólíkindum að þingheimur skuli hafa samþykkt þetta með einum rómi, enda eigi menn á þeim bæ að vita betur,“ segir í greininni.