Þingflokkur Pírata hefur ákveðið að sniðganga hátíðarfund Alþingis á Þingvöllum í dag vegna ákvörðun þingsins um að bjóða Piu Kjærsgaard um að ávarpa það. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá þingflokknum í dag.
Kjarninn greindi frá því í gær að Kjærsgaard, sem er forseti danska þingsins verði hátíðarræðumaður á þingfundi á Þingvöllum í dag í tilefni 100 ára fullveldisafmælis Íslands.
Ákvörðunin hefur vakið sterk viðbrögð, en Kjærsgaard er þekkt fyrir þjóðernissinnaðar skoðanir og hörð ummæli gegn fjölmenningu, innflytjendum og íslam.Samkvæmt tilkynningu Pírata var engin nauðsyn fyrir því að bjóða Kjærsgaard að ávarpa hátíðarfundinn í dag þar sem engin hefð sé fyrir því að erlendir gestir ávarpi þingfundi af þessu tagi. Píratar segja ákvörðunina óforsvaranlega og kalla Kjærsgaard einn helsta höfund og talsmann útlendingaandúðar í Evrópu.
Í tilkynningunni segir einnig að sjálfsagt og eðlilegt sé að fagna tímamótum sem þessum, þótt slík hátíðarhöld séu vandmeðfarin á tímum uppgangs þjóðernishyggju um víða veröld. Varhugavert sé að gefa þjóðernishyggju á nokkurn hátt undir fótinn við slík tilefni, en íslenska þjóðin eigi betra skilið en það.
Píratar segir að upphaflega hafi staðið til að taka þátt í hátíðarhöldunum og segja megi að þeir hafi flotið sofandi að feigðarósi þar sem persóna Piu væri þeim ekki ljós fyrr en við fréttaflutning í gær.