Áætlaður ávinningur vegna hagræðis fjármálaráðuneytisins í opinberum innkaupum síðustu ára er talinn nema yfir tveimur milljörðum króna. Sparnaðurinn kemur meðal annars frá samningi við Microsoft og hagkvæmari kaupum á flugmiðum Stjórnarráðsins. Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra við fyrirspurn Vilhjálms Árnasonar á vef Alþingis.
Fyrirspurn Vilhjálms snýr að breyttum áherslum í opinberum innkaupum fjármálaráðuneytisins sem kynntar voru árið 2016 og fólu þær meðal annars í sér breyttar innkaupaaðferðir, t.d. sameiginleg innkaup, örútboð og fækkun birgja.
Áherslurnar sem kynntar voru byggðu á niðurstöðum starfshóps ráðuneytisins frá árinu áður, en samkvæmt þeim var áætlað að slíkar breytingar myndu ná fram 2-4 milljarða króna hagræðingu í innkaupum á almennri vöru og þjónustu.
Samkvæmt svari fjármálaráðherra munu þær breytingar sem Ríkiskaup hefur nú þegar gert á fyrirkomulagi rammasamninga skila yfir tveimur milljörðum krónum í heildarávinning yfir líftíma samninganna. Þar að auki nefnir ráðherra nokkur dæmi um útboð sem skilað hafa mikilli hagræðingu, en þau voru eftirfarandi:
- Útboð á tölvubúnaði þar sem áætlaður ávinningur er rúmlega 100 milljónir króna á ári.
- Samningur við Microsoft vegna hugbúnaðarleyfa fyrir ríkið þar sem áætlaður ávinningur er um 200 milljónir króna árlega.
- Sameiginleg innkaup grunnskóla á ritföngum þar sem örútboð skilaði verði sem var 64,2% undir kostnaðaráætlun.
- Endurskipulagning á innkaupum í flugfarmiðum stjórnarráðsins sem metið er að skili um 100 milljóna króna ávinningi út samningstímann.
Vilhjálmur spurði einnig ráðherra sérstaklega um ávinning af rammasamningi um kaup á raforku til tveggja ára. Ráðherra sagði samningana hafi kostað um 1.721 milljónir króna fyrir bæði árin, 1.322 milljónir fyrir árið 2016 og 1.399 milljónir fyrir árið 2017. Hins vegar bætti hann við að erfitt sé að meta fjárhagslegan ávinning af samningunum þar sem raforkuverð séu breytileg.