Tæpar 2,7 milljónir erlendra ferðamanna komu til landsins í fyrra, sem er rúm fjórðungshækkun frá árinu 2016. Þrátt fyrir það hækkaði hlutdeild ferðaþjónustu í landsframleiðslu lítið milli ára sem og útgjöld ferðamannanna auk fjölda gistinótta. Þetta kemur fram í nýjum ferðaþjónustureikningum Hagstofu.
Samkvæmt Hagstofu er reikningunum ætlað að leggja mat á hlut ferðaþjónustunnar í hagkerfinu og þróun hennar sem atvinnugreinar. Bráðabirgðaniðurstöður þeirra gefa til kynna að framleiðsluverðmæti ferðaþjónustunnar hafi numið 8,6% af landsframleiðslu í fyrra, til samanburðar við 8,1% árið 2016. Aukning í hlutdeildinni var nokkuð minni árið 2017 en árin 2015 og 2016 en aftur á móti sambærileg því sem hún var árin 2012 til 2014.
Ferðaþjónustan heldur sínum stað sem næst stærsta atvinnugrein Íslands ef miðað er við hlutdeild af landsframleiðslu, en aðeins heild-og smásöluverslun er stærri með tæp 10% hlut. Þó tekur Hagstofa fram að hafa þurfi í huga að ferðaþjónusta sé ekki til sem sérstök atvinnugrein í hefðbundinni atvinnugreinaflokkum, heldur sé hún samsett grein þar sem lagt sé samant tiltekið hlutfall af starfsemi annarra atvinnugreina.
Útgjöld erlendra ferðamanna í fyrra voru metin á 376,6 milljarða króna, en þau jukust um tæp 9% milli ára. Útgjöldin voru hlutfallslega mest í þjónustugreinum sem beint tengjast ferðamönnum. Sömuleiðis eru erlendir ferðamenn mikilvæg tekjulind veitingaþjónustu hérlendis, en í fyrra stóðu þeir undir 46% af starfseminni.
Mest var þó aukningin í komum erlendra ferðamenna, en þær voru 2.690.465 talsins árið 2017 sem var 25,4% aukning frá fyrra ári. Flestir ferðamenn eru gistifarþegar sem koma til landsins með millilandaflugi. Gistifarþegum fjölgaði um 24,1% sem er mun meiri en 7,3% aukningin í fjölda gistinótta.