Heitavatnsnotkun á höfuðborgarsvæðinu á fyrstu sex mánuðum ársins hefur aldrei verið meiri. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Veitna fyrr í dag.
Samkvæmt tilkynningunni hefur sala á heitu vatni í Reykjavík frá janúar til júní í ár verið 10% meiri en að meðaltali, en í fjórum af þeim sex mánuðum sem liðnir eru af árinu hefur notkunin verið meiri en árið á undan. Mest hefur misræmi í heitavatnsnotkun milli ára verið í janúar og júní, en vikumet á notkuninni var slegið dagana 16.-23 janúar. Sé miðað við allt tímabilið hefur notkunin heldur aldrei verið meiri á fyrstu sex mánuðum ársins á höfuðborgarsvæðinu.
Veitur segja tvær meginástæður liggja að baki þessari miklu notkun, en það er annars vegar heildaraukning í heitavatnsneyslu höfuðborgarbúa síðustu ára og hins vegar kuldatíð í janúar og febrúar ásamt einstaklega „rysjóttri“ tíð í maí og júní á Suð-Vesturhorni landsins.